Fótbolti

Barcelona sækir fleiri leikmenn á frjálsri sölu

Atli Arason skrifar
Andreas Christensen, leikmaður Chelsea.
Andreas Christensen, leikmaður Chelsea. vísir/getty

Barcelona færist nær því að tryggja sér þjónustu þriggja nýrra leikmanna sem allir munu koma til liðsins án þess að greitt sé sérstaklega fyrir þá.

Andreas Christensen, leikmaður Chelsea, er sagður vera kominn langt á leið með því að ná samkomulagi við spænska risann um kaup og kjör. Samningur Christensen við Chelsea rennur út í sumar og mun hann því fara til Spánar á frjálsri sölu. Danski varnarmaðurinn mun skrifa undir fimm ára samning við Barcelona og í leið neita samningstilboðum frá Chelsea og Bayern Munich.

Noussair Mazraoui, leikmaður Ajax, er líka í viðræðum við Barcelona samkvæmt félagaskipta sérfræðingnum Fabrizio Romano. Þessi marokkóski leikmaður sem spilar oftast sem hægri bakvörður mun þá einnig koma ókeypis til Barcelona eftir yfirstandandi leiktíð.

Fílbeinstrendingurinn Franck Kessie, leikmaður AC Milan, er langt komin í sínum viðræðum við Barcelona. Samningur Kessie rennur út í sumar og er hann sagður hafa náð samkomulagi við spænska liðið. Verður hann þriðji leikmaðurinn sem Milan missir frá sér án þess að fá greiðslu fyrir, á eftir Hakan Calhanoglu og Gianluigi Donnarumma.

Eins og þekkt er, þá hefur Barcelona verið að ganga í gegnum fjárhagserfiðleika sem urðu meðal annars til þess að félagið missti Lionel Messi frá sér til PSG. Á síðastliðnu ári hefur félagið reglulega verið að fá til sín leikmenn á frjálsri sölu og má þar helst nefna leikmenn eins og Memphis Depay, Dani Alves, Eric Garcia og Pierre-Emerick Aubameyang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×