Þrátt fyrir að rússneski herinn hafi varið nokkrum dögum í endurskipulagningu og birgðadreifingu norður af Kænugarði, stöðvuðu Úkraínumenn sóknir þeirra á síðustu dögum og segir ISW það til marks um að raunveruleg geta heraflans á svæðinu sé minni en fjöldi hermanna gefi í skyn.
Þá eru Úkraínumenn sagðir hafa valdið rússneskri skriðdreka-herdeild miklum skaða austur af Kænugarði í dag.
Hér má sjá myndefni frá Radio Free Europe sem á að hafa verið tekið eftir að Úkraínumenn sigruðu herdeildina sem nefnd er hér að ofan.
Svipaða sögu er að segja af sóknum Rússa að Tsjernihív og Súmí, samkvæmt ISW, og gengur þeim lítið að sækja fram þar.
Rússum hefur heldur ekki tekist að sækja fram hjá Míkolaív í suðurhluta-Úkraínu og ná fótfestu á vesturbakka árinnar sem borgin stendur við.
ISW telur þó að Rússar geti gert öflugar sóknir í Suður- og Austur-Úkraínu á komandi dögum en óljóst sé hvort það geti skilað miklum árangri, sé mið tekið af frammistöðu rússneska hersins hingað til.
Ennfremur segir í greiningu hugveitunnar að flugher og loftvarnir Úkraínumanna hafi komið verulega niður á fremstu sveitum Rússa. Flugher Rússland geti ekki stutt þær og því séu þær viðkvæmar gagnvart loftárásum og stórskotaliðsárásum Úkraínumanna.
The likelihood is increasing that #Ukrainian forces could fight to a standstill the #Russian ground forces attempting to encircle and take #Kyiv.
— ISW (@TheStudyofWar) March 10, 2022
Read the latest report from @TheStudyofWar and @criticalthreats https://t.co/wD6Mq7Lhj3 pic.twitter.com/bfBpmtBszg
Embættismenn í Bandaríkjunum sögðu blaðamönnum í kvöld að enn sem komið er hefðu Rússar ekki gert tilraunir til að stöðva vopnasendingar til Úkraínumanna. Þær eru margar og virðist hafa fjölgað. Ekki er búist við því að Rússar láti þær sig engu varða til lengdar.
Sjá enga lausn
Þá segjast embættismenn beggja vegna við Atlantshafið ekki sjá fyrir endann á átökunum í Úkraínu. Þetta sögðu þeir í samtali við Washington Post og eru langvarandi átök talin það líklegasta í stöðunni.
Þeim munu fylgja tilheyrandi eyðilegging og dauðsföll en Rússar sitja nú um nokkrar borgir Úkraínu og eru sagðir gera linnulausar loft- og stórskotaliðsárásir á þær.
Hér að neðan má sjá annað myndband sem Radio Free Europe birti í kvöld. Það sýnir úkraínska hermenn gera gagnárás gegn Rússum norður af Kænugarði.