Körfubolti

Steph Curry grætti tíu ára stelpu tvisvar sinnum á fjórum dögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steph Curry talar við þennan mikla aðdáanda sinn en hann bætti henni heldur betur upp fjarveru sína nokkrum dögum fyrr.
Steph Curry talar við þennan mikla aðdáanda sinn en hann bætti henni heldur betur upp fjarveru sína nokkrum dögum fyrr. Skjámynd/Instagram

Hvíldardagur Curry kom mjög illa við ungan aðdáanda NBA-stórstjörnunnar en hann bætti henni þetta upp þegar hann mætti aftur í borgina þremur dögum síðar.

Tíu ára stuðningsmaður Steph Curry og Golden State Warriors öðlaðist smá frægð í netheimum eftir dramatísk viðbrögð sín.

Fyrst grét stelpan af því að Stephen Curry spilaði ekki og svo aftur nokkrum dögum seinna af því að hann kom til hennar fyrir leikinn.

Unga stúlkan hafði mætt á leik Denver Nuggets og Golden State Warriors til að sjá Curry spila og var búin að útbúa flott veggspjald þar sem hún hélt því fram að Curry ætti skilið að vera kosinn mikilvægasti leikmaður deildarinnar. Á því stóð: „Go Warriors, MVP Steph Curry“ eða „Áfram Warriors, Steph Curry er mikilvægasti leikmaður deildarinnar“.

Curry var hins vegar hvíldur í þessum leik og þegar stelpan frétti af því þá féllu tárin í stríðum straumum. Upptaka af henni grátandi vakti talsverða athygli á netheimum og Curry sjálfur frétti af þessu.

Vegna frestunar á leik Denver og Golden State vegna kórónuveirunnar fyrr á tímabilinu þá mættust liðin aftur á sama stað aðeins þremur dögum síðar.

Warriors sá til þess að stúlkan og öll fjölskylda hennar fékk miða á besta stað þegar Curry og félagar mættu í höllina nokkrum dögum síðar. Curry mætti síðan til hennar fyrir leik og talaði við hana.

Stúlkan réði þá ekki aftur við tárin en að þessu sinni voru það gleðitár. 

Hún sá líka Curry eiga góðan leik en hann skoraði 34 stig á 38 mínútum í leiknum og setti niður fimm þriggja stiga körfur. Golden State vann leikinn með ellefu stigum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×