Curry skoraði 47 stig í leiknum þegar lið hans Golden State Warriors vann 126-112 sigur á Washington Wizards og það þrátt fyrir að spila aðeins 35 mínútur. Hann skoraði sjö þrista og hitti úr 16 af 25 skotum sínum.
Curry skoraði 32 stig á afmælisdegi sínum í fyrra og 29 stig á afmælisdaginn sinn árið 2017. Þetta eru þrír síðustu leikir hans á afmælisdeginum sem er 14. mars.
Aðeins þrír leikmenn hafa náð að skora fleiri stig á afmælisdaginn sinn eða þeir Shaquille O´Neal, Dominique Wilkins og LeBron James.
Shaq á metið en hann var með 61 stig og 23 fráköst á 28 ára afmælisdaginn sinn árið 2000. Það sem meira er að Los Angeles Lakers vann þá 20 stiga sigur á nágrönnum sínum í Los Angeles Clippers.