Körfubolti

Gæslu­varð­hald yfir banda­rískri körfu­bolta­stjörnu í Rúss­landi fram­lengt

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Griner hefur verið í haldi í Rússlandi í um mánuð vegna hassolíu sem fannst í farangri hennar.
Griner hefur verið í haldi í Rússlandi í um mánuð vegna hassolíu sem fannst í farangri hennar. Getty/Mike Mattina

Dómstóll í Moskvu hefur framlengt gæsluvarðhald yfir bandarísku körfuboltastjörnunni Brittney Griner þar til 19. mars næstkomandi. Griner var handtekin fyrir mánuði síðan á flugvelli í Rússlandi og ekkert til hennar sést eða frá henni heyrst síðan.

Griner er ein besta körfuboltakona heims en hún spilar fyrir rússneska körfuknattleiksliðið UMMC Yekaterinburg í Eurolegue og hefur gert það síðan 2014 þá mánuði árs sem bandaríska WNBA-deildin er í fríi.

Griner er gert það að sök að hafa verið með hassolíu í farangri sínum á flugvellinum, sem notaður er til rafrettureykinga. Griner verður að öllum líkindum ákærð fyrir fíkniefnasmygl og á yfir höfði sér tíu ára fangelsi verði hún dæmd sek.

Margir telja að handtaka hennar sé pólitísk og Rússar muni nýta sér handsömun hennar í pólitískum tilgangi gegn yfirvöldum í Washington vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Það ber einnig að taka fram að Griner er samkynhneigð, sem getur reynst mjög hættulegt í Rússlandi.

Fram kemur í frétt TASS, ríkismiðils í Rússlandi, að Griner deili fangelsisklefa með tveimur öðrum konum og að hvorug kvennanna hafi dóma á bakinu. Griner hafi það þar að auki gott, einu vandræðin sem hún hafi glímt við í fangelsinu séu þau að rúmin séu of stutt fyrir hana, en hún er rúmir tveir metrar á hæð.


Tengdar fréttir

Stór­stjarnan Britt­n­ey Griner hand­tekin á flug­velli í Rúss­landi

Brittney Griner, tvöfaldur Ólympíumeistari í körfubolta og sjöfaldur þátttakandi í stjörnuleik WNBA-deildarinnar, hefur verið handtekin á flugvelli í Rússlandi eftir að í ljós að kom það var hassolía í rafrettu hennar. Hún gæti átt yfir höfði sér 5 til 10 ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×