Albert Guðmundsson þurfti að sætta sig við bekkjarsetu er Genoa vann 1-0 sigur gegn Torino í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.
Fyrir leikinn hafði Genoa gert sjö jafntefli í röð og þrátt fyrir það að það sé alltaf betra að fá eitt stig en ekkert þurfti liðið að fara að sækja fleiri stig í einu til að eiga möguleika í fallbaráttunni.
Manolo Portanova kom heimamönnum í Genoa í forystu strax á 14. mínútu. Þrátt fyrir að þurfa að spila manni færri í tæpar 70 mínútur eftir að Leo Oestigard fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt á 24. mínútu tókst leikmönnum Genoa að halda út og vinna leikinn.
Genoa situr í næst neðsta sæti deildarinnar með 22 stig eftir 30 leiki, aðeins þremur stigum frá öruggu sæti. Torino situr hins vegar í 11. sæti með 35 stig.