Leikar voru jafnir framan af leik en eftir rúmlega hálftíma leik kom Eggert Gunnþór Jónsson FH yfir. Ástbjörn Þórðarson átti þá góða sendingu inn á teig og Eggert Gunnþór kom boltanum í netið. Staðan 1-0 FH í vil í hálfleik.

Emil Atlason hefur verið sjóðandi heitur það sem af er undirbúningstímabili fyrir Stjörnuna og hann jafnaði metin í upphafi síðari hálfleiks með góðum skalla eftir hornspyrnu Jóhanns Árna Gunnarssonar.
Þegar rúmur stundarfjórðungur var til leiksloka kom Kristinn Freyr Sigurðsson FH yfir á nýjan leik eftir stoðsendingu Matthíasar Vilhjálmssonar.
Það var svo Ólafur Guðmundsson sem gerði endanlega út um leikinn þegar fjórar mínútur voru til leiksloka, lokatölur 3-1 og FH komið í úrslit.
Úrslitaleikur Lengjubikarsins fer fram laugardaginn 2. apríl og verður í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport.