Oliver hefur lengi verið í hópi efnilegustu fótboltastráka landsins sem sést á því að hann var kominn á samning hjá sænska stórliðinu. Hann hefur aftur á móti verið afar óheppinn með meiðsli á fyrstu árum ferils síns.
Til að reyna koma ferlinum aftur á stað þá hefur Oliver komið á láni til ÍA fyrir komandi sumar og fær þar tækifæri til að hjálpa æskufélaginu og um leið reyna að spila sig í gang.
Stefán Teitur fékk spurningu um frænda sinn á blaðamannafundinum í dag og hvort að það væri ekki erfitt að fylgjast með frænda sínum aldrei náð að koma sér almennilega í gang eftir öll þessi meiðsli.
„Það er ömurlegt. Drengurinn er búinn að ganga í gegnum allt of mikið fyrir svona ungan stráka í fótbolta. Að fá blóðtappa þarna og svo allt þetta vesen með meiðslin í mjöðminni og aðgerðina,“ sagði Stefán Teitur Þórðarson.
„Ég vona svo innilega að hann komi sér í gang aftur og fái allan tíma sem hann þarf. Ég veit að hann á mikla möguleika. Við tölum saman á hverjum einasta degi og erum mjög góðir vinir. Ég vona innilega að hann komi sér í gang og fari að standa sig,“ sagði Stefán Teitur.
Hvernig hefur verið að fylgjast með honum í þessari endurkomu og þá sérstaklega hugarfarslega?
„Bara frábært og ótrúlegt finnst mér hvernig hann hugsar um þetta. Hann hefur ekki einu sinni vælt í mér eða neitt. Þetta hafa auðvitað verið erfiðir tímar fyrir hann. Hann var nýkominn til baka úr meiðslunum og þá kemur þessi blóðtappi og hann þarf að fara í þessa risaaðgerð,“ sagði Stefán Teitur.
„Hann tók því bara virkilega vel. Ég er mjög stoltur af því hvernig hann hefur tæklað þetta,“ sagði Stefán.
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mætir Finnlandi á laugardaginn í Murcia og hefst leikurinn klukkan fjögur að íslenskum tíma. Liðið mætir svo Spáni í Coruna þriðjudaginn 29. mars og hefst sá leikur klukkan 18:45 að íslenskum tíma. Báðir leikirnir verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.