KA vann sterkan tveggja marka útisigur á Fram í leik sem Safamýrarpiltar þurftu nauðsynlega að vinna til að halda í vonina um sæti í úrslitakeppni Olís-deildar karla í handbolta. Lokatölur 26-24 gestunum frá Akureyri í vil og vonir Fram fara því dvínandi.
Fram spilaði nánast óaðfinnanlega í fyrri hálfleik. Heimamenn byrjuðu á að spila framliggjandi vörn og tókst KA ekki að skora mark fyrr en sjö mínútur voru liðnar af leiknum. Fram gerði fyrstu þrjú mörk leiksins.
Lárus Helgi Ólafsson, markmaður Fram, var í stuði í fyrri hálfleik. Lárus átti tilþrif fyrri hálfleiks þegar hann varði þrisvar frá leikmönnum KA í sömu sókninni. Lárus varði 10 skot í fyrri hálfleik sem var 53 prósent markvarsla.
Fyrirsjáanlegur sóknarleikur KA hélt áfram þegar leið á leikinn og skoruðu gestirnir aðeins fimm mörk á nítján mínútum. Fram var þá fjórum mörkum yfir 9-5.
Reynir Þór Stefánsson sem er fæddur árið 2005 kom inn af bekknum hjá Fram og tók vítin. Reynir tók fimm víti og skoraði úr þeim öllum.
Fram var sex mörkum yfir í hálfleik 15-9.
Fram byrjaði seinni hálfleik ágætlega en síðan fóru heimamenn að næla sér í brottvísanir og það setti blóð á tennur KA.
Í stöðunni 17-13 gerði KA fimm mörk í röð og komust gestirnir frá Akureyri marki yfir. Sóknarleikur KA var afar vel spilandi og tókst gestunum að skora jafn mörg mörk á tæplega korteri og liðið gerði á þrjátíu mínútum í fyrri hálfleik.
Leikurinn var í járnum og þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum var staðan 22-22. Þá komu þrjú atvik þar sem dómgæslan hallaði afar mikið á Fram. Gestirnir gengu á lagið og komust þremur mörkum yfir 22-25.
Þrátt fyrir að Magnús Gunnar Erlendsson, markmaður Fram, varði vel undir lokin þá voru heimamenn hættir. KA vann á endanum tveggja marka útisigur 24-26.
Af hverju vann KA?
Handboltaleikur er sextíu mínútur og það veit KA. Eftir ömurlegan fyrri hálfleik tóku KA-menn sig saman í andlitinu og unnu seinni hálfleik með átta mörkum 9-17.
Hverjir stóðu upp úr?
Óðinn Þór Ríkharðsson átti góðan leik fyrir gestina og var markahæstur á vellinum með níu mörk úr tíu skotum.
Allan Nordberg átti dapran fyrri hálfleik þar sem hann skoraði aðeins eitt mark. Allan reif sig í gang í seinni hálfleik og endað á að gera sex mörk í leiknum.
Hvað gekk illa?
Eins frábærlega og Fram spilaði í fyrri hálfleik voru heimamenn afleiddir í seinni hálfleik. Lárus Helgi Ólafsson varði eitt skot í seinni hálfleik. Þorsteinn Gauti skoraði þrjú mörk í leiknum og komu öll mörkin í fyrri hálfleik.
Hvað gerist næst?
Fram fer í Origo-höllina á laugardaginn og mætir Val klukkan 18:00 í beinni á Stöð 2 Sport.
Á sunnudaginn mætast KA og Afturelding klukkan 16:00 í KA-heimilinu.
Óðinn Þór: Erum drullu lélegir ef það eru ekki allir á tánum
Óðinn Þór Ríkharðsson, leikmaður KA, var afar ánægður með sigurinn á Fram.
„Maður hugsaði það fyrir leik, hvort við myndum telja okkur betri en við værum eftir að hafa farið í bikarúrslit. Þetta var aldrei að fara vera auðvelt í Safarmýrinni, við erum drullu lélegir ef það eru ekki allir að spila vel,“ sagði Óðinn Þór eftir leik og hélt áfram.
„Við sáum það í þessum leik að það var hollt að fá skell en samt vinna.“
Óðinn var afar ánægður með seinni hálfleikinn sem KA vann með átta mörkum.
„Við fórum yfir hvað við gerðum illa í hálfleik. Í seinni hálfleik hættum við að tapa boltanum, fórum að vinna einn á einn sóknarlega. Mér fannst vörnin góð allan leikinn, í fyrri hálfleik fengu þeir hraðaupphlaup sem okkur tókst síðan að skrúfa fyrir,“ sagði Óðinn Þór Ríkharðsson að lokum.
Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.