Fótbolti

Sagði „ógeðslegum“ spænskum fjölmiðlum að skammast sín

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gareth Bale minnti á sig með tveimur frábærum mörkum í sigri Wales á Austurríki.
Gareth Bale minnti á sig með tveimur frábærum mörkum í sigri Wales á Austurríki. getty/Ian Cook

Eftir að hafa verið kallaður sníkjudýr og fleira í þeim dúr í spænskum fjölmiðlum svaraði Gareth Bale fyrir sig með tveimur mörkum þegar Wales vann Austurríki, 2-1, í umspili um sæti á HM í gær.

Bale hefur afar lítið komið við sögu hjá Real Madrid á þessu tímabili og aðeins spilað samtals tvo klukkutíma síðasta hálfa árið. Bale er ekki á neinum lúsarlaunum hjá Real Madrid og blaðamaður Marca sagði að hann væri að mergsjúga félagið og kallaði hann sníkjudýr.

Bale minnti á hversu góður hann er með tveimur glæsilegum mörkum í sigri Wales í gær. Walesverjar eru nú aðeins einum sigri frá því að komast á HM í fyrsta sinn síðan 1958.

Eftir leikinn á Cardiff-leikvanginum var Bale spurður að því hvort hann væri með einhver skilaboð til spænskra fjölmiðla.

„Ég þarf þess ekki. Ég þarf ekki að segja neitt. Það er tímasóun,“ sagði Bale en sendi svo spænsku pressunni tóninn. „Þetta er ógeðslegt. Þeir ættu að skammast sín. Ég stressa mig ekki yfir þessu.“

Bale hefur nú skorað 38 mörk fyrir velska landsliðið og er markahæstur í sögu þess. Hann hefur leikið 101 landsleik.

Wales mætir annað hvort Úkraínu eða Skotlandi í úrslitaleik í umspilinu. Leikurinn fer fram í Cardiff, líklega í júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×