Þáttur í samkomulaginu er skuldbinding Bandaríkjanna um að auka útflutning á fljótandi gasi til Evrópu um að minnsta kosti 15 milljarða rúmmetra á þessu ári. Þá stendur til að auka magnið enn meira í framtíðinni.
Joe Biden Bandaríkjaforseti og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, tilkynntu um samkomulagið fyrr í dag og sögðu markmiðið að draga úr þörf Evrópu á rússneskum orkugjöfum, án þess að koma niður á getu ríkjanna til að standa við markmið sín í loftslagsmálum.
„Við verðum að tryggja að fjölskyldur í Evrópu komist í gegnum þennan vetur og næsta á meðna við byggjum innviði fyrir fjölbreytta, þolgóða og hreina orkuframtíð,“ sagði Biden í Brussel.
Hann mun í dag halda til Póllands og meðal annars hitta flóttafólk frá Úkraínu.
Von der Leyen sagði skuldbindingu Bandaríkjanna myndu koma í staðinn fyrir það gas sem Evrópa fengi nú frá Rússlandi. Samvinnan ætti að koma Evrópu í gegnum átökin og styðja við sjálfstæði álfunnar.
Um það bil 40 prósent af öllu gasi sem Evrópa notar kemur frá Rússlandi og um fjórðungur allrar olíu. Evrópa flytur inn sex sinnum meiri olíu frá Rússlandi en Bandaríkin. Bandaríkin hafa bannað innflutning á olíu og gasi frá Rússlandi en Evrópuríkin sagst munu minnka gasinnflutningin um tvo þriðju á þessu ári.
Biden sagðist meðvitaður um þá erfiðleika sem það myndi valda Evrópu að hætta að kaupa orku frá Rússum en sagði skrefin sem tilkynnt hefði verið um í dag væru mikilvæg til að hindra Vladimir Pútín Rússlandsforseta frá því að nota orku til að „þvinga og spila með nágranna sína“.
Hann sagði það einu siðferðilega réttu ákvörðunina og að það myndi treysta þann grunn sem vesturveldin stæðu á.