Æfingarnar hafa fengið vel hjá öllum í hópnum nema tveimur framherjum eða þeim Alberti Guðmundssyni og Andra Lucasi Guðjohnsen.
„Það eru ekki allir hjá okkur heilir,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, þegar hann var spurður út í ástandið á leikmannahópnum.
„Albert er búinn að vera veikur alla vikuna. Hann var veikur í síðustu viku líka fyrir leik hjá Genúa. Þegar hann kom til okkar á mánudaginn þá kom þetta aftur, hiti og einhver slappleiki,“ sagði Arnar Þór.
„Hann hefur voða lítið æft með okkur og var í fyrsta skiptið í dag að byrja. Hann verður mjög líklega ekkert með á morgun,“ sagði Arnar Þór.
„Svo er það sama með Andra Lucas (Guðjohnsen). Hann fékk spark á hnéð rétt áður en hann kom til okkar og er bara búinn að vera að byggja upp alla vikuna,“ sagði Arnar Þór.
„Fyrir utan þá tvo hafa allir verið með allan tímann og það hefur gengið vel að æfa. Þeir tveir eru stærstu spurningarmerki fyrir morgundaginn,“ sagði Arnar Þór.