Erlent

Rússar sprengdu upp eldsneytisgeymslu í Lviv

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Eldsneytisgeymslur í Lviv urðu fyrir sprengjum Rússa í nótt.
Eldsneytisgeymslur í Lviv urðu fyrir sprengjum Rússa í nótt. Gett7Joe Raedle

Rússar sprengdu upp vöruhús úkraínska hersins í borginni Lviv í nótt, sem er í vesturhluta landsins. Rússneska varnarmálaráðuneytið gaf það út í morgun að hárnákvæmar stýriflaugar hafi verið notaðar til verksins. 

Langdrægar eldflaugar Rússa lentu á eldsneytisgeymslu úkraínska hersins en þeir beittu stýriflaugunum til að sprengja upp vöruhús sem herinn hafði verið að nota til að gera við loftvarnarkerfi,  radarkerfi og skriðdreka. 

„Rússneski herinn heldur áfram árásaraðgerðum í sérstakri hernaðaraðgerð í Úkraínu,“ sagði í tilkynningu rússneska varnarmálaráðuneytisins í morgun. 

Rússneskir ráðamenn hafa enn eina ferðina hótað því að beita kjarnorkuvopnum í stríðinu í Úkraínu. Dmitri Medvedev, fyrrverandi forseti og núverandi meðlimur í þjóðaröryggisráði Rússlands, sagði í gær að yfirvöld í Moskvu myndu ekki hika við að beita kjarnavopnum gegn óvini sem aðeins notaði hefðbundin vopn. 

Vólódímír Selenskí forseti Úkraínu hefur þá enn og aftur kallað eftir því að Bandaríkin og Evrópa tryggi Úkraínumönnum fleiri herþotur, skriðdreka, loftvarnakerfi og önnur vopn. Hann segir stöðuna í Úkraínu munu ráða framhaldinu fyrir öll vestræn ríki. 

Joe Biden Bandaríkjaforseti hvatti þá til þess í ræðu, sem hann flutti í gærkvöldi að, að embættismennirnir í kring um Vladimír Pútín Rússlandsforseta steypi honum af stóli. Þá uppnefndi hann Pútín „slátrara“.

Þá gerðu Rússar árás á kjarnakljúf fyrir utan Kharkív í gærkvöldi. Úkraínska þingið segir enn sem komið er ekki hægt að segja til um hversu alvarlegar skemmdirnar á kjarnakljúfnum eru. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×