Fótbolti

Mount: Erfitt að sjá samherja ganga í gegnum þetta

Atli Arason skrifar
Samherjarnir hjá Chelsea, Jorginho og Mason Mount.
Samherjarnir hjá Chelsea, Jorginho og Mason Mount. Getty Images

Mason Mount finnur til með Jorginho, liðsfélaga sínum hjá Chelsea. Jorginho og félagar í ítalska landsliðinu verða ekki með á HM í Katar eftir tap gegn Norður-Makedóníu í umspili um laust sæti á mótinu síðasta þriðjudag.

„Maður veit það tekur mikla erfiðisvinnu að komast í þessa stöðu, að komast ekki alla leið eftir að hafa verið svo nálægt getur verið niðurdrepandi,“ sagði Mason Mount.

Jorginho var í tárum eftir tapið á þriðjudaginn en í viðtölum eftir leik tók hann alla ábyrgðina á sig að Ítalía væri ekki með á HM. Jorginho klikkaði á tveimur vítaspyrnum í sitthvoru jafnteflinu gegn Sviss í undankeppninni, ef önnur þeirra hefði endað í netinu þá væri Ítalía meðal þátttakenda á HM í desember 2022.

„Það er erfitt fyrir mig að sjá leikmann sem ég hef spilað með síðustu þrjú árin fara í gegnum eitthvað svona,“ sagði Mount um Jorginho.

„Ég sendi honum skilaboð eftir leik, ég sagði honum að halda hausnum uppi og að hann væri nú þegar búinn að eiga frábært tímabil. Vonandi getum við unnið fleiri bikara saman,“ bætti Mount við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×