Í fréttum Stöðvar 2 var SG-bílaverkstæði á Borðeyri heimsótt. Sveinn Karlsson bifvélavirki og Guðný Þorsteinsdóttir, eiginkona hans, stofnuðu það fyrir 46 árum, aðallega til að sinna viðgerðum fyrir bændur í Hrútafirði og nærsveitum.
„Síðan hafa ferðamennirnir bæst hraustlega í og mikið utan vinnutíma,“ segir Sveinn.
-Þannig að þú ert bjargvætturinn á þjóðvegunum?
„Já, hérna á ákveðnu svæði, Holtavörðuheiðinni og hérna vestur í Húnaþing og eitthvað hérna norður Strandir.“

Og þar kemur dráttarbíllinn sér vel, en Sveinn segir að þetta séu mest útlendingar, einkum Asíubúar, sem lendi í vandræðum.
„Þeir festa sig og fara út af. Það er aðallega þetta.“
-Þannig að þið lifið á klaufskum ferðamönnum?
„Meðal annars, já,“ svarar Sveinn og hlær.
Og það er ekki alltaf auður vegur á Holtavörðuheiði né skyggnið gott. Þá segir Sveinn að ferðamenn séu furðu oft á ferðinni á nóttinni.
„Og margir hafa kannski aldrei séð snjó, hvað þá hálku. Þannig að maður eiginlega dáist að þeim hvað þeir eru harðir að leggja í þetta. Þó að það sé blindbylur, þá bara hverfa þeir út í sortann.“
-Og kannski á litlum „Yarisum“, eins og sagt er?
„Meðal annars. Það er allur flotinn í því,“ svarar Sveinn á Borðeyri.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Sveinn er meðal viðmælenda í þættinum Um land allt um Hrútafjörð, sem frumsýndur verður á Stöð 2 í kvöld, mánudagskvöld, klukkan 19:10. Hann fjallar um samfélagið við vestanverðan fjörðinn í sveitinni sem áður var Bæjarhreppur. Hér má sjá kynningarstiklu þáttarins: