Fótbolti

Fögnuðu sæti á HM án þess að vera komnir á mótið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bandaríkjamenn fagna HM-sætinu sem þeir eru ekki enn búnir að tryggja sér.
Bandaríkjamenn fagna HM-sætinu sem þeir eru ekki enn búnir að tryggja sér. getty/Julio Aguilar

Leikmenn bandaríska karlalandsliðsins í fótbolta hlupu aðeins á sig þegar þeir fögnuðu sæti á HM í Katar eftir 5-1 sigur á Panama í gær.

Með sigrinum tóku Bandaríkjamenn stórt skref í áttina að Katar en þeir eru þó ekki búnir að tryggja sér farseðilinn þangað, allavega formlega.

Bandaríkjamenn fögnuðu sigrinum vel og innilega og héldu meðal annars á borða þar sem sagði að þeir væru komnir á HM. En svo er ekki. Bandaríkin mæta Kosta Ríka í lokaleik sínum í undankeppninni á miðvikudaginn. Þeir þurfa að tapa með að minnsta kosti sex marka mun til að missa af HM-sæti.

Christian Pulisic, sem skoraði þrennu í leiknum í Orlando í gær, baðst afsökunar á fagnaðarlátunum ótímabæru.

„Strákarnir vissu ekki ekkert hvað stóð á borðanum. Þeir fengu hann bara. Það var engin ástæða til að flagga honum því við höfum ekki klárað okkar verk,“ sagði Pulisic. „Við nálgumst þennan leik eins og hvern annan. Við gerum það nákvæmlega eins og við þyrftum sigur.“

Fyrir fimm árum unnu Bandaríkin Panama, 4-0, í næstsíðasta leik sínum í undankeppninni en töpuðu fyrir Trínídad og Tóbagó, 2-1, í lokaleiknum og misstu þar af leiðandi af sæti á HM í Rússlandi. Ólíklegt er þó að það gerist að þessu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×