Fótbolti

Ronaldo vill að allt verði brjálað í kvöld

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo lék í 3-1 sigri Portúgals gegn Tyrklandi á Drekavöllum síðastliðið fimmtudagskvöld. Nú er komið að úrslitaleik.
Cristiano Ronaldo lék í 3-1 sigri Portúgals gegn Tyrklandi á Drekavöllum síðastliðið fimmtudagskvöld. Nú er komið að úrslitaleik. Getty/Pedro Fiúza

Cristiano Ronaldo verður orðinn 41 árs þegar HM 2026 í fótbolta fer fram. Það hefur eflaust sitt að segja um það að hann telji leik Portúgals og Norður-Makedóníu í kvöld vera „upp á líf og dauða“.

Portúgal og Norður-Makedónía mætast á Drekavöllum í Portúgal í kvöld í úrslitaleik um sæti á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Katar í lok þessa árs.

Það yrði væntanlega síðasta HM Ronaldos en til þess að af því verði má Portúgal ekki gera sömu mistök og Evrópumeistarar Ítalíu sem óvænt töpuðu 1-0 fyrir Norður-Makedóníu.

„Ég hvet stuðningsmennina – Ég vil að allt verði vitlaust [e. hell breaking loose] á Drekavöllum,“ sagði Ronaldo sem er fyrirliði portúgalska landsliðsins.

„Ég lagðist upp í rúm í gærkvöld og hugsaði um það að ég myndi vilja að slökkt yrði á græjunum þegar þjóðsöngurinn okkar hefst, og að stuðningsmenn syngi án tónlistar til að sýna ástríðuna okkar, styrk okkar og sameiningarkraft í baráttunni um að komast á HM.

Fyrir okkur er þetta leikur upp á líf og dauða. Það er okkar ábyrgðarhlutverk að vinna þennan leik. Þetta er leikur lífs okkar. Þeir hafa komið mörgum andstæðingum á óvart en ég held að þeir komi okkur ekki á óvart,“ sagði Ronaldo.

Leikur Portúgals og Norður-Makedóníu er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 í kvöld klukkan 18.45. Annar úrslitaleikur um sæti á HM, á milli Póllands og Svíþjóðar, er í beinni á Stöð 2 Sport 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×