Íslenski boltinn

Heima­völlur Fram ekki til­búinn fyrir fyrstu um­ferð Bestu-deildarinnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ólafur Íshólm, markvörður Fram.
Ólafur Íshólm, markvörður Fram. Vísir/HAG

Fram leikur Bestu-deild karla í knattspyrnu í sumar. Verður það í fyrsta skipti í átta ár sem liðið leikur í efstu deild. Heimavöllur liðsins verður hins vegar ekki klár þegar mótið hefst og því óvíst hvar leikurinn fer fram.

Þetta kom fram í viðtali Fótbolti.net við Jón Þóri Sveinsson, þjálfara liðsins. Nýliðar Fram fá fyrrum nágranna sína KR í heimsókn þann 20. apríl. Aðstaða félagsins verður hins vegar ekki klár fyrir þann tíma og segir Jón óvíst hvar leikurinn fer fram.

„Við ætluðum að vera með allt klárt upp frá en nýjustu upplýsingar eru þær að gervigrasið muni ekki berast í tæka tíð svo það næst því miður ekki,“ sagði Jón í viðtalinu við Fótbolti.net.

Hann sagðist ekki viss hvar leikurinn færi fram en gamli heimavöllur liðsins í Safamýri er ekki löglegur í Bestu-deildinni og því litlar líkur að leikurinn fari þar fram.

Besta-deildin hefst þann 18. apríl næstkomandi, þar mætast Víkingur og FH. Degi síðar eru þrír leikir og fyrstu umferð lýkur svo 20. apríl. Hvort Fram og KR geti skipt á heimaleikjum er óvíst en KR leikur á grasi og ekki er víst að það sé klárt í slaginn svo snemma árs.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport en nýtt keppnistímabil hefst 18. apríl. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×