Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - ÍBV 32-31| Selfoss vann Suðurlandsslaginn

Andri Már Eggertsson skrifar
Rúnar Kárason.
Rúnar Kárason. Vísir/Hulda Margrét

Selfoss vann eins marks sigur á ÍBV 32-31. Selfoss er eina liðið sem hefur unnið ÍBV á árinu 2022 og það tvisvar. 

Selfyssingar byrjuðu Suðurlandsslaginn betur. Eftir tæplega sjö mínútur komust heimamenn þremur mörkum yfir 6-3 og tókst Eyjamönnum aldrei að saxa á forskot Selfyssinga í minna en þrjú mörk í fyrri hálfleik.

Það var mikill hraði í fyrri hálfleik og var sóknarleikurinn í fyrirrúmi hjá báðum liðum sem skilaði í heildina 33 mörkum á hálftíma.

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, sagði í viðtali fyrir leik að Atli Ævar Ingólfsson hafi oft reynst Eyjamönnum erfiður og það breyttist ekki í dag. Atli Ævar var allt í öllu á línunni og skoraði sex mörk úr jafn mörgum skotum í fyrri hálfleik.

ÍBV hélt sér inni í leiknum og misstu heimamenn aldrei lengra frá sér en í fjögur mörk. Eyjamenn gátu verið svekktir með sjálfan sig í hálfleik þar sem þeir fóru illa með þó nokkur dauðafæri sem Selfoss nýtti sér oftar en ekki í hraðaupphlaupum.

Selfoss var þremur mörkum yfir í hálfleik 18-15.

Eyjamenn byrjuðu seinni hálfleik vel og voru ekki lengi að jafna leikinn í 21-21 en þá náði Selfoss þriggja marka áhlaupi. Selfyssingar héldu áfram að keyra á gestina og voru heimamenn fjórum mörkum yfir þegar síðari hálfleikur var hálfnaður. 

ÍBV svaraði áhlaupi heimamanna með sama bragði og var leikurinn jafn 27-27 þegar tíu mínútur voru eftir og voru lokamínúturnar æsispennandi.

Það var eiginlega með ólíkindum að ÍBV fengu tækifæri í lokasókninni til að jafna þar sem Eyjamenn brenndu af helling af dauðafærum og var Vilius Rasimas, markmaður Selfyssinga, með alla leikmenn ÍBV í vasanum nema Ásgeir Snæ Vignisson sem skoraði þrjú af síðustu fjórum mörkum ÍBV. 

Ásgeir fékk tækifæri á að jafna leikinn í lokasókninni en skaut í stöngina og Selfoss vann eins marks sigur 32-31.

Af hverju vann Selfoss?

Selfyssingar áttu sigurinn svo sannarlega skilið og þrátt fyrir jafnan leik þá komst ÍBV aldrei yfir. 

Selfyssingar voru aðeins minni klaufar þar sem þeir klikkuðu á færri dauðafærum og töpuðu einum bolta minna en Eyjamenn og það skildi liðin að á endanum. 

Hverjir stóðu upp úr?

Vilius Rasimas, markmaður Selfoss, átti stórleik og varði 13 skot sem er ekki mikið í prósentum talið en inni í þessu er hellingur af dauðafærum sem Vilius varði.

Atli Ævar Ingólfsson var frábær í fyrri hálfleik og gerði sex mörk en í heildina gerði hann sjö mörk úr jafn mörgum skotum.

Sigtryggur Daði Rúnarsson var markahæstur hjá ÍBV með 8 mörk úr 10 skotum.

Hvað gekk illa?

ÍBV fór afar illa með færin bæði úr bæði horni og línu. En úr þessum stöðum skoraði ÍBV átta mörk úr átján skotum.

Theodór Sigurbjörnsson átti í miklum vandræðum með að koma boltanum framhjá Vilius Rasimas og skoraði Theodór aðeins tvö mörk úr sex skotum. 

Hvað gerist næst?

Næsta umferð sem er sú næst síðasta í deildarkeppninni verður öll leikinn á sama tíma næsta miðvikudag klukkan 19:30. Selfoss fer norður og mætir KA á meðan ÍBV fær Gróttu í heimsókn.

Erlingur: Vorum nálægt stiginu þrátt fyrir að hafa brennt af dauðafærum

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var svekktur eftir leik.Vísir/Hulda Margrét

Erlingur Birgir Richardsson, þjálfari ÍBV, var svekktur með eins marks tap gegn Selfossi.

„Við fengum færi í lokin sem endaði með skoti í stöngina og munaði bara nokkrum sentimetrum á að við myndum ná jafntefli,“ sagði Erlingur eftir leik.

Erlingur var svekktur með vörn ÍBV í fyrri hálfleik sem fékk 18 mörk á sig.

„Varnarleikurinn var ekki góður í fyrri hálfleik þar sem Atli Ævar var okkur erfiður á línunni en ég var ánægður með hvernig við leystum það í seinni hálfleik þar sem við lokuðum á línu sendingarnar.“

Erlingur var ánægður með hvernig ÍBV kom til baka undir lok leiks og fékk tækifæri á að jafna leikinn eftir að hafa verið undir nánast allan leikinn.

„Varnarleikurinn var betri. Mér fannst við spila ágætlega í sókn þrátt fyrir að klikka á fimm dauðafærum á þessum kafla og vantaði lítið upp á að þetta hafi dottið með okkur,“ sagði Erlingur að lokum. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira