Erla var ein sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum. Hún var dæmd í Hæstarétti árið 1980 fyrir að hafa í samráði við þá Kristján Viðar Júlíusson og Sævar Marínó Ciesielski sakað fjóra menn, sem kenndir eru við skemmtistaðinn Klúbbinn, ranglega í málinu. Þeir sátu í kjölfarið í gæsluvarðhaldi í yfir 100 daga.
Endurupptökunefnd ákvað árið 2017 að mál allra sakborninga í málunum skyldu fara aftur fyrir dómstóla nema mál Erlu. Taldi endurupptökunefndin að ekki væru uppfyllt skilyrði fyrir endurupptöku máls hennar þar sem ekki lægju fyrir gögn sem bentu til þess að hún hafi verið beitt þrýstingi er hún bar mennina fjóra röngum sökum.
Hún ákvað í kjölfarið að höfða einkamál gegn ríkinu til að fara fram á ógildingu þessarar ákvörðunar endurupptökunefndarinnar.

Undirstriki vilja til sátta
Fram kom í gær að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hygðist una dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í síðustu viku í bótamáli tveggja barna Sævars Ciesielski, eins sakborninga, sem voru dæmdar hærri bætur en áður hafði verið ákveðið.
„Til þess að gæta jafnræðis munum við þá bjóða öðrum Sævars sem ekki voru aðilar að þessu dómsmáli þá sambærilega bótafjárhæð og munum einnig eiga sambærileg samtöl við afkomendur Tryggva Rúnars,“ segir Katrín.
„Sem ég tel að undirstriki okkar vilja til að sýna það að stjórnvöld hafa beðist afsökunar og vilja gera sitt til að ná sátt í þessu einstaka og erfiða máli.“
Það skýrist eftir helgi hvort börn Sævars áfrýi dómnum.