Dísella var þakklætið uppmálað þegar hún tók við verðlaunum á Grammy-sviðinu í Las Vegas í gærkvöldi ásamt samsöngvurum sínum Zachary James og Anthony Costanzo. Hún lauk þakkarræðunni með orðunum „Bragi, ég elska þig!“, kveðju til eiginmannsins Braga Jónssonar, sem fylgdi henni á hátíðina.
Þau hjónin eru nú á leið heim eftir viðburðarríka daga í Las Vegas en Dísella fann stund milli stríða á ferðalaginu nú síðdegis til að ræða þennan merka árangur.
„Sko þessi verðlaun eru náttúrulega bara ótrúleg. Ég eiginlega átta mig ekki á þessu enn þá. Það var súrrealískt að hljóta þau, ég held ég þurfi bara aðeins að komast heim og fatta þetta aðeins,“ segir Dísella.
Dísella og félagar voru verðlaunuð yrir bestu óperuupptöku ársins, óperu eftir Philip Glass um líf og valdatíð egypska faraósins Akhnaten, sem sett var upp í Metrópólitan óperunni í New York og hlotið hefur einróma lof gagnrýnenda. Verkið er Dísellu kært, hún fer þar með hlutverk Tye drottningar, og hún kveðst orðlaus yfir viðurkenningunni nú.
„Þetta er ótrúlega þýðingarmikið, svakalegur heiður og efst í huga er endalaust þakklæti. Ég er eiginlega orðlaus bara,“ segir Dísella.
Hildur Guðnadóttir tónskáld hlaut Grammy-verðlaun fyrir tónlistina í sjónvarpsþáttunum Chernobyl árið 2020 og fyrir tónlistina í kvikmyndinni Jókernum árið 2021.
Steinar Höskuldsson, betur þekktur sem Husky Höskulds, vann Grammy fyrir upptökustjórn á fyrstu plötu söngkonunnar Noruh Jones, Don´t Know Why, árið 2003.
Sigurbjörn Bernharðsson fiðluleikari var einn meðlima Pacifica-kvartettsins sem fékk Grammy fyrir besta flutning kammertónlistar á plötu. Kristinn Sigmundsson fyrir einsöng í The Ghost of Versaille eftir Corigliano.