Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík 99-90 KR | Deildarmeistararnir náðu loks að leggja KR Siggeir Ævarsson skrifar 6. apríl 2022 21:54 vísir/hulda margrét Deildarmeistarar Njarðvíkur tóku á móti KR-ingum í Ljónagryfjunni í kvöld þar sem hart var tekist á. Alvöru úrslitakeppnisleikur hér í kvöld og rífandi stemming í húsinu. KR-ingar hafa haft gott tak á Njarðvíkingum í vetur og völtuðu yfir þá síðast þegar liðin mættust, svo það má segja það hafi verið smá pressa á deildarmeisturunum fyrir þennan leik. KR-ingar mættu til leiks í kvöld án Bandaríkjamanns, en þeir sögðu í fyrradag upp samningi sínum við Isaiah Manderson. KR-ingar höfðu að vísu aðeins unnið einn af þeim fimm leikjum sem Manderson spilaði og þeir virtust ekki sakna hans sérstaklega. Leikurinn var jafn og spennandi frá upphafi til enda. Njarðvíkingar leiddu oftast með 4-10 stigum en KR aldrei langt undan og komust yfir á köflum. Munaði þar ekki síst um framlag Carl Allan Lindbom sem var 6 af 10 í þristum eftir þrjá leikhluta en tók af einhverjum sökum ekki fleiri þriggja stiga skot það sem eftir lifði leiks. Hann hefði að ósekju alveg mátt reyna nokkra þrista enn og KR-ingar hefðu án vafa þegið þá á lokasprettinum. Eftir áhlaup frá KR í þriðja leikhluta, þar sem Lindbom og Darbo skoruðu grimmt, tóku Njarðvíkingar góða rispu og fóru inn í lokaleikhlutann með fimm stiga forskot, staðan 73-68. Það mæddi mikið á áðurnefndum Lindbom og Adama Darbo í stigaskori fyrir KR þessa fyrstu þrjá leikhluta, Lindbom með 23 og Darbo með 21, 54 af 68 stigum KR-inga. Í lokaleikhlutanum náðu Njarðvíkingar að halda KR-ingum í nokkuð þægilegri fjarlægð og dansaði munurinn í kringum 10 stig megnið af fjórðungnum. Heimamenn héldu kannski að sigurinn væri í höfn í stöðunni 91-81 þegar rúm mínúta var til leiksloka en þá kom lokaáhlaup frá KR þar sem þeir náðu að minnka muninn í 4 stig, 94-90, eftir stóran þrist frá Þorvaldi Orra þegar 29 sekúndur lifðu af leiktímanum. Nær komust þeir þó ekki og Njarðvík settu síðustu 5 stig leiksins, lokatölur 99-90 og nokkuð sanngjarn Njarðvíkur sigur niðurstaðan. Af hverju vann Njarðvík? Vörnin hjá Njarðvík var þétt í kvöld. Ákefðin er alltaf aðeins meiri í úrslitakeppninni og dómararnir eiga það til að horfa í gegnum fingur sér með villur, sem virtist fara töluvert í taugarnar á KR-ingum. Hvað gekk illa? KR-ingum gekk ekki vel að dreifa stigaskorinu, og það mæddi mikið á Lindbom og Darbo. Mögulega kom það í bakið á þeim undir lokin þegar þristarnir hættu að koma frá Lindbom. Hverjir stóðu upp úr? Hjá Njarðvík var Fotos Lampropoulos lang stigahæstur með 28 stig. Hljóðlátur og lúmskur leikur hjá Fotos í kvöld en þessi stigasöfnun virtist fara framhjá bæði blaðamanni og Benedikt Guðmundssyni, þjálfara Njarðvíkur. Nicolas Richotti var duglegur að finna Fotos félaga sinn, endaði með 14 stig og 10 stoðsendingar. Hjá KR voru Carl Allan Lindbom og Adama Darbo í ákveðnum sérflokki, 26 stig frá Lindbom og 25 frá Darbo. Lindbom bætti við 12 fráköstum og Darbo 9 stoðsendingum. Hvað gerist næst? Njarðvík hefur tekið forystuna í einvíginu 1-0, en vinna þarf þrjá til að komast áfram. Næsti leikur verður á Meistaravöllum 9. apríl kl. 20:15. „Klikkum á nokkrum smáatriðum sem við erum búnir að marg fara yfir“ Helgi Már Magnússon, þjálfari KR.Foto: Bára Dröfn/Bára Dröfn Kristinsdóttir Bára Dröfn Helgi Már Magnússon, þjálfari KR-inga, var sáttur við margt í leik sinna manna í kvöld en sagði að smáatriðin hefðu fellt þá að lokum. „Ég er ánægður með hvernig við spiluðum á mjög stórum köflum í þessum leik. Það voru svona þessi klassísku stemmings „Njarðvíkur móment“, en við létum það aldrei hafa of mikil áhrif á okkur, bara héldum áfram og vorum einbeittir í því sem við ætluðum að gera. Það sem kannski skilur á milli hérna í kvöld eru aðallega smáatriði sem við erum að klikka á og kannski klaufalegir tapaðir boltar. Ég á náttúrulega eftir að horfa á þetta aftur en mín upplifun af þessu er að við klikkum á nokkrum smáatriðum sem við erum búnir að marg fara yfir, og við bara lögum það fyrir næsta leik.“ Carl Lindbom og Adama Darbo skoruðu bróðurpartinn af stigum KR-inga í kvöld. Hefur Helgi engar áhyggjur af því að það mæði of mikið á þeim og það sé ekki að koma nægt sóknarframlag frá öðrum leikmönnum? „Þeir sem skora skora, ég hef engar áhyggjur af því. Það er varnarleikurinn sem við ætlum að einblína á. Sóknin er bara þannig að við tökum því sem býðst. Ef það eru þessir tveir, þá bara „bæng“, ef það er einhver annar er það bara einhver annar. Við erum ekkert að velta okkur of mikið upp úr því.“ Það var hart tekist á í kvöld og KR-ingarnir virtust á köflum svolítið pirraðir út í dómarana. Voru Helgi og hans lærisveinar klárir í þessa ákefð sem fylgir úrslitakeppninni? „Já heldur betur. Mér fannst þeir bara mjög flottir. Um leið og þetta er svona aðeins meira, leyft aðeins meira klafs heldur en í deildarkeppninni, og það er bara allt í góðu, mér fannst við bregðast bara vel við því. Smá pirringur en það er hiti í mönnum, þeir vilja vinna og allt það. Mér finnst við bara vel tilbúnir í þetta.“ Subway-deild karla UMF Njarðvík KR
Deildarmeistarar Njarðvíkur tóku á móti KR-ingum í Ljónagryfjunni í kvöld þar sem hart var tekist á. Alvöru úrslitakeppnisleikur hér í kvöld og rífandi stemming í húsinu. KR-ingar hafa haft gott tak á Njarðvíkingum í vetur og völtuðu yfir þá síðast þegar liðin mættust, svo það má segja það hafi verið smá pressa á deildarmeisturunum fyrir þennan leik. KR-ingar mættu til leiks í kvöld án Bandaríkjamanns, en þeir sögðu í fyrradag upp samningi sínum við Isaiah Manderson. KR-ingar höfðu að vísu aðeins unnið einn af þeim fimm leikjum sem Manderson spilaði og þeir virtust ekki sakna hans sérstaklega. Leikurinn var jafn og spennandi frá upphafi til enda. Njarðvíkingar leiddu oftast með 4-10 stigum en KR aldrei langt undan og komust yfir á köflum. Munaði þar ekki síst um framlag Carl Allan Lindbom sem var 6 af 10 í þristum eftir þrjá leikhluta en tók af einhverjum sökum ekki fleiri þriggja stiga skot það sem eftir lifði leiks. Hann hefði að ósekju alveg mátt reyna nokkra þrista enn og KR-ingar hefðu án vafa þegið þá á lokasprettinum. Eftir áhlaup frá KR í þriðja leikhluta, þar sem Lindbom og Darbo skoruðu grimmt, tóku Njarðvíkingar góða rispu og fóru inn í lokaleikhlutann með fimm stiga forskot, staðan 73-68. Það mæddi mikið á áðurnefndum Lindbom og Adama Darbo í stigaskori fyrir KR þessa fyrstu þrjá leikhluta, Lindbom með 23 og Darbo með 21, 54 af 68 stigum KR-inga. Í lokaleikhlutanum náðu Njarðvíkingar að halda KR-ingum í nokkuð þægilegri fjarlægð og dansaði munurinn í kringum 10 stig megnið af fjórðungnum. Heimamenn héldu kannski að sigurinn væri í höfn í stöðunni 91-81 þegar rúm mínúta var til leiksloka en þá kom lokaáhlaup frá KR þar sem þeir náðu að minnka muninn í 4 stig, 94-90, eftir stóran þrist frá Þorvaldi Orra þegar 29 sekúndur lifðu af leiktímanum. Nær komust þeir þó ekki og Njarðvík settu síðustu 5 stig leiksins, lokatölur 99-90 og nokkuð sanngjarn Njarðvíkur sigur niðurstaðan. Af hverju vann Njarðvík? Vörnin hjá Njarðvík var þétt í kvöld. Ákefðin er alltaf aðeins meiri í úrslitakeppninni og dómararnir eiga það til að horfa í gegnum fingur sér með villur, sem virtist fara töluvert í taugarnar á KR-ingum. Hvað gekk illa? KR-ingum gekk ekki vel að dreifa stigaskorinu, og það mæddi mikið á Lindbom og Darbo. Mögulega kom það í bakið á þeim undir lokin þegar þristarnir hættu að koma frá Lindbom. Hverjir stóðu upp úr? Hjá Njarðvík var Fotos Lampropoulos lang stigahæstur með 28 stig. Hljóðlátur og lúmskur leikur hjá Fotos í kvöld en þessi stigasöfnun virtist fara framhjá bæði blaðamanni og Benedikt Guðmundssyni, þjálfara Njarðvíkur. Nicolas Richotti var duglegur að finna Fotos félaga sinn, endaði með 14 stig og 10 stoðsendingar. Hjá KR voru Carl Allan Lindbom og Adama Darbo í ákveðnum sérflokki, 26 stig frá Lindbom og 25 frá Darbo. Lindbom bætti við 12 fráköstum og Darbo 9 stoðsendingum. Hvað gerist næst? Njarðvík hefur tekið forystuna í einvíginu 1-0, en vinna þarf þrjá til að komast áfram. Næsti leikur verður á Meistaravöllum 9. apríl kl. 20:15. „Klikkum á nokkrum smáatriðum sem við erum búnir að marg fara yfir“ Helgi Már Magnússon, þjálfari KR.Foto: Bára Dröfn/Bára Dröfn Kristinsdóttir Bára Dröfn Helgi Már Magnússon, þjálfari KR-inga, var sáttur við margt í leik sinna manna í kvöld en sagði að smáatriðin hefðu fellt þá að lokum. „Ég er ánægður með hvernig við spiluðum á mjög stórum köflum í þessum leik. Það voru svona þessi klassísku stemmings „Njarðvíkur móment“, en við létum það aldrei hafa of mikil áhrif á okkur, bara héldum áfram og vorum einbeittir í því sem við ætluðum að gera. Það sem kannski skilur á milli hérna í kvöld eru aðallega smáatriði sem við erum að klikka á og kannski klaufalegir tapaðir boltar. Ég á náttúrulega eftir að horfa á þetta aftur en mín upplifun af þessu er að við klikkum á nokkrum smáatriðum sem við erum búnir að marg fara yfir, og við bara lögum það fyrir næsta leik.“ Carl Lindbom og Adama Darbo skoruðu bróðurpartinn af stigum KR-inga í kvöld. Hefur Helgi engar áhyggjur af því að það mæði of mikið á þeim og það sé ekki að koma nægt sóknarframlag frá öðrum leikmönnum? „Þeir sem skora skora, ég hef engar áhyggjur af því. Það er varnarleikurinn sem við ætlum að einblína á. Sóknin er bara þannig að við tökum því sem býðst. Ef það eru þessir tveir, þá bara „bæng“, ef það er einhver annar er það bara einhver annar. Við erum ekkert að velta okkur of mikið upp úr því.“ Það var hart tekist á í kvöld og KR-ingarnir virtust á köflum svolítið pirraðir út í dómarana. Voru Helgi og hans lærisveinar klárir í þessa ákefð sem fylgir úrslitakeppninni? „Já heldur betur. Mér fannst þeir bara mjög flottir. Um leið og þetta er svona aðeins meira, leyft aðeins meira klafs heldur en í deildarkeppninni, og það er bara allt í góðu, mér fannst við bregðast bara vel við því. Smá pirringur en það er hiti í mönnum, þeir vilja vinna og allt það. Mér finnst við bara vel tilbúnir í þetta.“
Uppgjörið: KR - Grindavík 120-112 | KR fór með sigur úr framlengingu gegn fáliðuðum Grindvíkingum