Útboð á hlut ríkisins í Íslandsbanka í síðasta mánuði var aftur til umræðu þegar Alþingi kom saman í dag en þingmenn hafa gagnrýnt framkvæmd útboðsins harðlega.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem á sæti í fjárlaganefnd, sagðist hafa orðið fyrir vonbrigðum, þrátt fyrir að hún hafi fengið allar upplýsingar og gögn um útboðið.
„Ég verð að viðurkenna að ég er svekkt þegar ég les lista yfir þá sem hafa fengið að kaupa í þessu ferli,“ sagði Bryndís.
Hún vísar til þess að hún hafi staðið í þeirri meiningu að ríkið væri að leita að stórum og öflugum fjárfestum til lengri tíma.
„Þegar ég fer svo að lesa gögnin mín þá átta ég mig á því að það er ekkert sem stendur beinum orðum og svo eiga við. Ég naga sjálfan í handarbökin fyrir að hafa ekki spurt þeirrar spurningar,“ sagð Bryndís.
Hún sagðist engu að síður telja það hafa verið rétta ákvörðun að selja Íslandsbanka. Þá fagnaði hún ákvörðun fjármálaráðherra um að fela Ríkisendurskoðun að endurskoða ferlið.
„Það er traust og trúverðugleiki sem skiptir mestu máli þegar við seljum ríkiseignir. Þá þarf það ávallt að vera í gagnsæju og sanngjörnu og réttlátu ferli,“ sagði Bryndís.
„Því miður höfum við ekki fengið svör við öllum okkar spurningum og þess vegna er nauðsynlegt að bæði fjárlaganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og þingið allt fái svar við þeim spurningum sem út af standa,“ sagði hún enn fremur.
Ráðherrar hafi ekki beitt sér fyrir trúverðugleika í bankakerfinu
Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, á sömuleiðis sæti í fjárlaganefnd en hún sagði nauðsynlegt að fá svör um kostnað við útboðið, sem nam um 700 milljónum króna, og hvernig val fór fram á fjárfestum.
„Fjármálaeftirlitið þarf að kanna hjá öllum fjármálastofnunum hvaða aðilar fengu hækkun úr almennum fjárfesti í fagfjárfesti nokkrum vikum fyrir útboðið, tóku þátt í útboðinu og fengu úthlutað,“ sagði Kristrún.
Þá þurfi að kanna hvort það hafi verið geðþóttarákvörðun hjá umsjónaraðila eða Bankasýslunni hverjir fengu hlut.
„Bankasýslan heldur á eignarhlut ríkisins í bankanum. Í ljósi þess má gera ráð fyrir því að forsvarsmenn hennar hafi verið viðstaddir þegar úthlutun var ákvörðuð. Hér kom út hvítbók um fjármálakerfið sem stjórnarformaður Bankasýslunnar stýrði sjálfur þar sem lykilatriði var traust á bankakerfinu,“ sagði Kristrún.
„Það að hæstvirtir ráðherrar hafi ekki beitt sér fyrir því að framkvæmdin og salan stuðlaði að trúverðugleika í bankakerfinu er til marks um algert forystuleysi og vanhæfni,“ sagði hún enn fremur.