Handbolti

Elliði skoraði fjögur í öruggum sigri Gummersbach

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elliði Snær Viðarsson í leik með íslenska landsliðinu.
Elliði Snær Viðarsson í leik með íslenska landsliðinu. EPA-EFE/Tamas Kovacs

Elliði Snær Viðarsson skoraði fjögur mörk úr jafn mörgum skotum er Gummersbach vann öruggan átta marka sigur gegn Hamm-Westfalen í toppslag þýsku B-deildarinnar í handbolta í kvöld, 37-29.

Liðin sitja í fyrsta og þriðja sæti deildarinnar og því var góður möguleiki fyrir lærisveina Guðjóns Vals Sigurðssonar í Gummersbach að styrkja stöðu sína á toppnum.

Heimamenn í Gummarsbach voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu með níu mörkum þegar gengið var til búningsherbergja. Eftir það var sigur þeirra í raun aldrei í hættu og lokatölur urðu 37-29, Gummersbach í vil.

Eins og áður segir skoraði Eyjamaðurinn Elliði Snær Viðarsson fjögur mörk fyrir Gummersbach í kvöld. Liðið hefur nú sex stiga forskot á toppnum með 46 stig eftir 28 leiki, en Hamm-Westfalen situr enn í þriðja sæti með 37 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×