Innlent

Segir búið að „af­tengja jafnaðar­hug­sjónina“ í hús­næðis­málum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
„Viðtökurnar hafa verið langt umfram væntingar myndi ég segja,“ segir Einar um það hvernig honum hefur verið tekið í pólitíkinni eftir langan feril í blaðamennsku.
„Viðtökurnar hafa verið langt umfram væntingar myndi ég segja,“ segir Einar um það hvernig honum hefur verið tekið í pólitíkinni eftir langan feril í blaðamennsku. Vísir/Egill

Einar Þorsteinsson, fréttamaður og oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, segir að ef meirihlutinn í borginni verði áfram við völd muni neyðarástand áfram ríkja á húsnæðismarkaði.

Meirihlutinn hafi einblínt um of á þéttingu byggðar, sem hafi orðið til þess að fyrstu íbúðarkaup séu orðin hálfgerð áhættufjárfesting vegna óeðlilega hás húsnæðisverðs. 

Þetta segir Einar í samtali við Morgunblaðið í dag. 

„Ég er ekki á móti borgarlínu og ekki á móti því að þétta byggð en við þurfum að fara í miklu kraftmeiri sókn í húsnæðismálunum. Það er alltaf verið að tala um framtíðina en framtíðin er líka á morgun og það þarf að drífa í þessu,“ segir Einar. 

Hann segir að búið sé að aftengja jafnaðarhugsjónina með því að úthluta ekki fleiri lóðum til að mæta eftirspurn og áhugavert að það hafi gerst á vakt þeirra flokka sem nú skipa meirihlutann.

„Mér hefur fundist húsnæðisstefna Reykjavíkurborgar ekki vera á forsendum íbúanna að því leyti að fleiri þurfa þak yfir höfuðið en fá. Stefnan er meira í þágu markmiða í skipulagsmálum um þéttingu byggðar, ásamt því að handvelja stóreignafélög og verktaka til að byggja á dýrustu reitum borgarinnar. Þessi stefna hefur hækkað verð gríðarlega.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×