Innlent

Sau­tján ára fluttur með sjúkra­bíl eftir árás

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Mikill erill var á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Mikill erill var á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Vísir/Vilhelm

Ráðist var á sautján ára dreng í miðborg Reykjavíkur klukkan hálf fjögur í nótt. Árásarmennirnir flúðu af vettvangi en drengurinn var fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku. Líðan drengsins liggur ekki fyrir.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en um áttatíu mál voru skráð í dagbók lögreglunnar í nótt. Tólf gistu í fangageymslu.

Þá var sautján ára drengur handtekinn grunaður um eignaspjöll og brot á lögreglusamþykkt rétt eftir klukkan þrjú í nótt. Haft var samband við forráðamenn sem komu og sóttu drenginn.

Ráðist á starfsmann í verslun klukkan 18 í gærkvöldi þegar hann var að loka versluninni. Árásarmaðurinn réðst á hann með höggum og spörkum og sló hann síðan í bakið með barefli.

Maðurinn hafði einnig í hótunum við fólk á svæðinu en starfsmaðurinn kannaðist við árásarmanninn. Hann fannst rúmlega klukkustund síðar og var handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Þá tilkynnti maður um líkamsárás á veitingastað í Hafnarfirði skömmu fyrir klukkan þrjú í nótt. Hann sagðist hafa verið sleginn í andlitið en árásarmaðurinn var farinn af vettvangi þegar lögregla kom á staðinn.

Harður árekstur varð á Höfðabakka í gær en talið er að ökumaður hafi ekið gegn rauðu ljósi. Einn meiddist lítillega.

Nokkrir ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og eða fíkniefna. Sautján ára ökumaður var meðal annars tekinn fyrir að hafa ekið á 92 kílómetra hraða á klukkustund á götu þar sem leyfilegur hámarkshraði er 50 kílómetra hraði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×