Innlent

Þing­mönnum Mið­flokks fjölgar tíma­bundið á kostnað Sjálf­stæðis­manna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Erna mun taka sæti Birgis þegar hann er frá í meira en þrjá daga.
Erna mun taka sæti Birgis þegar hann er frá í meira en þrjá daga.

Erna Bjarnadóttir hefur tekið sæti á Alþingi sem varaþingmaður fyrir Birgi Þórarinsson. Venjulega þykja fregnir sem þessar ekki sæta tíðindum en nú ber svo við að Birgir er þingmaður Sjálfstæðisflokksins en Erna þingmaður Miðflokksins.

Birgir var kjörinn á þing fyrir Miðflokkinn síðsta haust en greindi frá því í október að hann hefði ákveðið að yfirgefa flokkinn og ganga í Sjálfstæðisflokkinn. Var hann harðlega gagnrýndur fyrir að hafa vistaskipti svo skömmu eftir kosningar en fagnað af nýjum samflokksmönnum.

Þegar hann greindi frá flokksskiptum sínum sagði Birgir að Erna, varaþingmaður sinn, hefði ákveðið að fylgja honum yfir í Sjálfstæðisflokkinn. Erna sagði hins vera frá því í Bítinu á Bylgjunni skömmu seinna að hún ætlaði að vera kyrr í Miðflokknum.

„Hún hefur greinilega skipt um skoðun og ég held að það sé partur af þeirri hörðu umræðu sem hefur verið í samfélaginu og haft mikil áhrif á hana,“ sagði Birgir við Morgunútvarp Rásar 2 sama dag.

Erna situr sinn fyrsta þingfund í dag, þar sem gera má ráð fyrir að salan á hlut ríkisins í Íslandsbanka verði rædd í óundirbúnum fyrirspurnatíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×