„Ég er spennt að sjá hvaða spennandi samstarfsmöguleikar fæðast á þessu móti. Á slíkum mótum fer samtal af stað sem annars ætti sér ekki stað né stund. Það er alveg klárt að það er fullt af frábærum nýsköpunarlausnum sem geta hraðað og stutt fyrirtæki við umhverfisvænan rekstur,“ segir Katrín Jónsdóttir sérfræðingur hjá Rannís um Loftlagsmótið sem haldið verður á Grand hótel þann 4.maí.
Á Loftlagsmótinu fara aðilar á stefnumót þar sem markmiðið er að leita hugmynda og lausna að umhverfisvænni rekstri. Í ár er sérstaklega horft til nýsköpunar.
Í Atvinnulífinu í dag og á morgun er fjallað um Loftlagsmótið 2022. Loftlagsmótið er haldið af Grænvangi, RANNÍS, Festu og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.
Margar nýjar hugmyndir um lausnir
Að sögn Katrínar er það sama upp á teningnum á Íslandi eins og annars staðar; áhersla nýsköpunaraðila beinist mikið að því að skoða loftlags- og umhverfismál.
Sem dæmi nefnir Katrín hraðalinn Hringiða á vegum Klak.
„Markmið hraðalsins er að draga fram, efla og styðja við nýsköpunarverkefni fyrirtækja og stofnanna og bjóða upp á metnaðarfullan vettvang til undirbúnings fyrir Evrópuumsóknir. Sprotaverkefnum er líka veittur aðgangur að breiðu tengslaneti leiðbeinenda úr atvinnulífinu og markvissri þjálfun.“
Þá segir Katrín áhugann á Loftlagsmótinu einnig segja sitt en í fyrra voru 100 fundir haldnir á mótinu með 90 stofnunum og fyrirtækjum.
Fundirnir fara fram sem stutt stefnumót þar sem aðilar ræða við hvorn annan í korter í senn.
Fyrirtæki og stofnanir sem leita lausna, eru með lausnir eða vinna að vöruþróun eru hvött til að taka þátt.
„Nýsköpun, framþróun og umbreytingar byrja með samtali á milli hagaðila, það er það sem Loftslagsmótið snýst um, samtal um grænni framtíð,“ segir Katrín.

Hægt að fá leiðsögn um styrki
Katrín segir miklu skipta að meira fjármagni er nú veitt til málaflokksins en áður. Það eigi bæði við um fjármagn í íslenska sjóði og erlenda.
„Bæði Loftsslagsjóður og Tækniþróunarsjóður eru ríkissjóðir sem Rannís umsýslar. Í báðum styrkjaflokkum eru með skýrar áherslur á umhverfismál, hringrásarhagkerfið og kolefnishlutleysi.“
Sem dæmi um Evrópusjóði nefnir Katrín LIFE prógrammið sem felur í sér 5,4 milljarða króna áætlun.
„Markmiði að stuðla að sjálfbæru, hringlaga, orkusparandi og kolefnishlutlausu hagkerfi. Leitast eftir lausnum sem eru nálægt markaði. Helstu áherslur verða á umhverfisvernd, orkuskiptingu og hringrásarhagkerfið.“
Þá nefnir hún Digital Europe áætlunina sem leggur áherslu á stafrænar og grænar lausnir og Horizon Europe áætluninni.
Í þeirri síðarnefndu eru 95 milljarðar Evra í sjóðum sem meðal annars er ætlað er að styrkja rannsóknir, þróun og innleiðingu nýskapandi grænna lausna.
Áætlunin styrkir rannsóknir og nýsköpun í öllum geirun en ein af höfuðáherslunum eru grænar lausnir.
Til að greiða úr þessum styrkjafrumskógi, þá sérstaklega Evrópusjóðum má finna þjónustu hjá Rannís bæði hjá Enterprise Europe Network og landstengiliðir Evrópuáætlana.
Tilbúnir að styðja við aðila með umhverfislausnir að skoða styrkjaumhverfið og aðstoða við að finna réttu styrkina og samstarfsaðila.“
Þá bendir hún á að á gagnatorgi Rannís sé einnig hægt að fá tilfinningu fyrir fjölda umsókna og úthlutuna úr sjóðum Rannís.
Ýmiss samstarfsverkefni þykja líka mjög eftirsóknarverð. Þar segir Katrín sprotafyrirtæki spila stórt hlutverk í samstarfi við háskóla og rannsóknarstofnanir.
„Við hvetjum fyrirtæki til að hafa samband við starfsfólk Rannís til að kanna frekari styrkjamöguleika og stuðning.“
Dagskrá Loftlagsmótsins má sjá HÉR.