Staðan í hálfleik var 3-0 fyrir Breiðablik og Blikaliðið þá verið mikið betri aðilinn á vellinum.
„Það var gott að skora í byrjun seinni hálfleiks og ná fjórða markinu. Svo féllu þær svolítið niður og lokuðu vel þannig að það hægðist á leiknum. Við vorum að reyna, vorum að halda í boltann en auðvitað er alltaf hætta að það komi eitthvað í bakið á manni ef boltinn tapast.“
Þór/KA beit frá sér síðari hluta seinni hálfleiks og náðu verðskuldað inn marki.
„Leikurinn fjaraði hálfpartinn út og við urðum værukærar og þær fengu möguleika og náðu marki fullkomlega verðskuldað. 4-1 sigur, við erum ánægð með það.“
Breiðablik átti í vandræðum með að verjast hornspyrnum Þórs/KA í síðari hálfleik og skapaðist oft á tíðum hætta þá.
„Hluti af því að vera værukær er að þá ertu undir í þessum föstu leikatriðum og návígjum sem við vorum ekki framan af. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða.“
Hafrún Rakel Halldórsdóttir var búin að skora tvö mörk á fyrsta hálftímanum í dag og kom af feykikrafti inn í leikinn.
„Hún var gríðarlega öflug. Hún hefur verið í vandræðum með meiðsli í vetur og ekki alveg komin í hundrað prósent stand. Við vonuðumst til að hún gæti klárað fram að hálfleik en því miður kom eitthvað uppá í ristinni og við vonum að það verði ekki brot en það kemur í ljós eftir myndatöku.“
Natasha Anasi kom til Breiðabliks í hafsentinum og kemur mjög öflug inn í miðvarðarstöðu Breiðabliks.
„Ég hef sagt að mér finnst hópurinn öflugur og vill ekki taka einhverja eina út. Við erum með öflugan hóp og okkar verkefni er að búa til gott lið úr honum. Það eru margar góðar og við erum ánægð með breiddina eins og staðan er,“ sagði Ásmundur að lokum.