Erlent

Gæti misst þing­sætið eftir að hafa horft á klám í þing­sal

Smári Jökull Jónsson skrifar
Parish er sagður hafa horft á klámmyndbönd í tvígang á vinnutíma.
Parish er sagður hafa horft á klámmyndbönd í tvígang á vinnutíma. Vísir/Facebook

Breski þingmaðurinn Neil Parish hefur verið rekinn úr þingflokki Íhaldsflokksins eftir að hafa viðurkennt að hafa horft á klám í þingsal. 

Parish gaf sig fram til siðafulltrúa breska þingsins í gær eftir að tvær þingkonur Íhaldsflokksins tilkynntu að þær hefðu séð hann horfa á klám í síma sínum í tvígang, einu sinni í þingsal og í hitt skiptið á nefndarfundi.

Rannsókn er hafin á málinu en sjálfur segir Parish að hann hafi opnað myndband fyrir mistök í síma sínum.

„Ég gerði það en látum rannsóknina leiða það í ljós,“ segir Parish í viðtali við Sky News. Hann segist ætla að sitja áfram en muni hætta ef hann verði fundinn sekur.

Kallað hefur verið eftir því að Parish segi af sér vegna málsins og Harriet Harman, þingmaður Verkamannaflokksins og sú kona sem lengst hefur setið á þingi, segir að Parish sé ekki hæfur sem þingmaður.

„Hann ætti að sætta sig við það og ekki draga þetta ferli á langinn.“

Áður en í ljós kom að Parish var umræddur þingmaður hafði Rachel Maclean, öryggismálaráðherra Bretlands og samflokksmaður Parish sagt að þingmaðurinn ætti að vera rekinn úr flokknum. Hún segist standa við orð sín.

„Svona hegðun á ekki heima á neinum vinnustað, hvað þá á þinginu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×