Ellert Grétarsson vaknaði upp við glamur í svefnherbergishurðinni sinni í fyrrinótt og hélt að jarðskjálfti hefði riðið yfir. Þegar glamrið breyttist síðan í þung högg spratt hann fram úr rúminu og fann brunalykt. Þegar fram er komið tók síðan á móti honum kolsvartur reykjarmökkur.
„Ég hrópa af öllum lífs- og sálarkröfum á strákinn minn en fékk ekkert svar. Náði að komast inn í herbergið hans en hann var ekki í rúminu síniu. Það var það skelfilegasta af öllu - að vita ekki um hann,“ skrifar Ellert í færslu á Facebook síðu sinni en Vísir fékk leyfi Ellerts til að vitna í færslu hans.

Ellert náði þó fljótt sambandi við son sinn sem svaraði í símann og hann var sem betur fer ekki heima. Ellert segir að hann hafi ekki séð handa sinna skil en hafi tekist að halda niðri í sér andanum og feta sig með fram vegg og að útidyrahurðinni og fram á stigagang.
„Ég hafði gripið með mér símann af náttborðinu til að geta hringt á hjálp. Stuttu síðar er slökkviliðið komið og neyðarlínan slítur samtalinu.“
Hann segir að upptök eldsins hafi verið í fjöltengi í stofunni og er þakklátur fyrir að ekki hafi farið verr.
„Ég vil þakka nágrönnum mínum hugulsemina fyrir að hlúa að mér og koma mér í föt því ég var hálfnakinn þegar ég kom út. Sérstakleg vil ég þakka frábæra starfsfólkinu sem tók á móti mér á HSS fyrir alúðlega aðhlynningu um nóttina. “