Fótbolti

Senegal fær stóra sekt fyrir grænu geislana á höfði Mohamed Salah

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah og félagar í egypska landsliðinu verða ekki með á HM í Katar í lok árs.
Mohamed Salah og félagar í egypska landsliðinu verða ekki með á HM í Katar í lok árs. EPA-EFE/KHALED ELFIQI

Senegel tryggði sér sæti á heimsmeistaramótinu í fótbolta í Katar á kostnað Egyptalands eftir sigur í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik í mars síðastliðnum.

Stuðningsmenn senegalska landsliðsins urðu hins vegar uppvísir af því að beina lasergeislum að höfði Mohamed Salah þegar hann tók spyrnu sína í vítakeppninni. Grænu geislarnir lýstu upp andlit Salah sem sást vel í sjónvarpsútsendingunni.

Alþjóða knattspyrnusambandið hefur ákveðið að sekta senegalska sambandið um 180 þúsund Bandaríkjadala eða rúmar 23,5 milljónir íslenskra króna, fyrir hegðun stuðningsmanna sinna.

Salah skaut yfir markið úr sinni spyrnu og liðsfélagi hans hjá Liverpool, Sadio Mane, tryggði Senegal með því að skora úr síðustu vítaspyrnunni.

Senegal fær sektina einnig fyrir að hafa ekki stjórn á stuðningsmönnum sínum sem hlupu inn á völlinn þegar sigurinn var í höfn auk móðgandi fána í stúkunni og það að sambandinu hafi mistekist að halda uppi lögum og reglu á leikvanginum.

Að viðbættri sektinni þá þarf Senegal einnig að leika næsta heimaleik sinn í keppni án áhorfanda.

Það voru fleiri sambönd sem fengu sektir eftir ólæti áhorfenda. Nígería fékk 150 þúsund dollara sekt og einn leik án áhorfenda. Kongó og Líbanon fengu einnig yfir hundrað þúsund Bandaríkjadala sekt og einn leik án áhorfenda.

Knattspyrnusamband Síle fékk 98 þúsund dollara sekt og knattspyrnusamband Kólumbíu 56 þúsund dollara sekt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×