Nýskipaður sendiherra Georgíu á Íslandi er nú á landinu ásamt sendinefnd til að fagna 30 ára afmæli stjórnmálasambands landanna. Ísland var meðal þeirra fyrstu til að viðurkenna sjálfstæði Georgíu og eiga löndin margt sameiginlegt þrátt fyrir að þau séu landfræðilega mjög fjarlæg.
Helsta markmiðið með komunni er að styrkja tengslin milli Íslands og Georgíu á ýmsum sviðum, þar á meðal í menningar- og efnahagsmálum. Einnig er það tilgangur fundarins að ræða aðild Georgíu að Atlantshafsbandalaginu.
„Við viljum fá stuðning og tryggja okkur atkvæði allra til stuðnings við stöðu okkar svo það verði einhver framvinda eftir fjórtán ár þar sem ekkert hefur gerst á pólitíska sviðinu,“ segir Natela Menabde, sendiherra Georgíu gagnvart Íslandi.
„Með hverri rödd allra landa, hvort sem þau eru stór eða lítil, fáum við meiri stuðning,“ segir hún enn fremur.
Krafan er sérstaklega mikilvæg í dag í ljósi stöðunnar í Úkraínu en Rússar réðust inn í Georgíu fyrir fjórtán árum. Þannig finna Georgíumenn til með Úkraínumönnum á hátt sem fáir aðrir geta gert.
„Nú held ég að við fáum einnig skilning frá þeim sem hafa ekki verið í okkar sporum og þeir sjá líka að nú gengur þetta lengra en tvíhliða stríð og smáar skærur,“ segir Natela um hvernig það er að horfa á stríðið frá augum Georgíumanna.
Hún segir mögulegt að ef Georgía hefði fengið aðild að NATO eða meiri stuðning fyrr hefði verið hægt að koma í veg fyrir innrásina árið 2008, og hugsanlega innrásina í Úkraínu.
Engan tíma megi nú missa þar sem ljóst er að Rússar muni ekki stoppa í Úkraínu heldur gætu þeir reynt að leggja fleiri lönd undir sig.
„Við vitum að það þarf að virkja mjög sterkan, sameinaðan og ákveðinn stuðning frá alþjóðasamfélaginu til að binda enda á þessar þjáningar fólksins,“ segir Natela.
Rússar safna liði og halda árásum sínum áfram
Vesturlöndin hafa tilkynnt um umfangsmiklar refsiaðgerðir undanfarna tvo mánuði og í dag funduðu orkumálaráðherrar Evrópusambandsins um mögulegt olíubann.
Ekkert lát er þó á árásum Rússa, sérstaklega í austurhluta Úkraínu.
„Óvinurinn safnar nú liði á svæðunum í kringum Zaporizhzhia, Kryvyi Rih og Mykolaiv og eykur stórskota- og loftárásir. Í héruðunum Kharkiv, Donetsk og Zaporizhzhia beita Rússar herflugvélum til að gera eldflauga- og sprengjuárásir,“ sagði Oleksandr Motuzyanyk, talsmaður varnamálaráðuneytis Úkraínu, í dag.
Mariupol, sem hefur sætt linnulausum árásum er þá nánast alfarið á valdi Rússa en svokallað mannúðarhlið var í borginni í dag. Úkraínumenn saka þó Rússa um að hafa rænt íbúum.
Fleiri er en þrjú þúsund óbreyttir borgarar í Úkraínu hafa fallið í árásum rússneskra hersveita frá upphafi innrásarinnar, samkvæmt upplýsingum fræa Mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna.
Talan er þó líklega töluvert hærri í ljósi þess að erfiðlega hefur reynst að fá upplýsingar um fólk á nokkrum svæðum í Úkraínu, þar á meðal Mariupol.