Skoðun

Lett­lands­bryggja 1

Pawel Bartoszek skrifar

Í gær, 4. maí, voru 32 ár síðan Lettland lýsti yfir endurheimt sjálfstæðis. Það er því táknrænt að það var á þessum degi sem skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur samþykkti að gefa þremur götum í nýja Ártúnshöfðahverfinu nöfn sem undirstrika vináttu Íslands og Eystarsaltsríkjanna.

Norður af núverandi strandlengju við Sævarhöfða verður lítið síki. Gatan við síkið, sem verður fyrst og fremst ætluð gangandi mun fá heitið Eistlandsbryggja. Næstu tvær götur fyrir norðan munu fá heitin Lettlandsbryggja og Litháenbryggja. Þetta eru götur í þéttu borgarumhverfi þar sem gert er ráð fyrir verslunum og þjónustu á jarðhæð. Þær munu liggja skammt frá nýrri sundlaug sem verðu nyrst á nesinu og mun þjóna hverfinu öllu. 

Á fundi skipulagsráðs var jafnframt samþykkt að setja upp upplýsingaskilti á torginu á horni Túngötu og Garðastrætis sem nú hefur fengið nafnið Kænugarður. Þar er listaverkið Stuðningur sem er gjöf frá Lettum og hefur lengi haft mikla þýðingu fyrir tengsl landanna og samfélag Letta á Íslandi. Þessum tengslum verður nú gert hærra undir höfði. 

 Í öllum þremur höfuðborgum Eystrarsaltsríkjanna erum götur og torg sem kennd eru við Ísland. Í Vilníus er að Íslandsstræti og Ríga og Tallin hafa Íslandstorg. Íslandstorgið í Ríga var líka fyrsta nafngjöf í þeirri borg sem vísaði til annars ríkis. Nú er rétt að endurgjalda þennan þakklætisvott. 

 Þetta er söguleg stund. Aldrei áður hafa götur í Reykjavík verið nefndar eftir öðrum löndum. Það fer einkar vel á því að Eystarsaltsríki brjóti þar ísinn. Samstarf okkar er þétt. Og vináttuböndin sterk og varanleg.

Höfundur er í 2. sæti á lista Viðreisnar í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×