Áslaug var kjörin varaborgarfulltrúi árið 2006 og borgarfulltrúi árið 2014. Hún tók þátt í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík árið 2018 en hafði ekki erindi sem erfiði. Eyþór Arnalds hlaut 2.320 atkvæði og var Áslaug önnur með 788 atkvæði. Áslaug fékk ekki sæti neðar á listanum þrátt fyrir að hafa óskað eftir því.
Ferskur og framsækinn frambjóðendahópur
Í samtali við Bæjarins bestu segir Áslaug að þetta hafi ekki verið erfið ákvörðun.
„Mér finnst líka að frambjóðendahópurinn sé að slá á nýja strengi, er ferskur og framsækinn en skilur einnig að gott samstarf er forsenda framfara enda leggja þau áherslu á bætt samskipti og samráð við íbúa á svæðinu. Ég er þess fullviss að ég geti lagt margt gott til málanna.“
Bæjarstjórinn á leið til kirkjunnar
Sjálfstæðisflokkurinn hlaut þrjá bæjarfulltrúa í Ísafjarðarbæ í kosningunum 2018, Framsóknarflokkurinn tvo og Í-listinn fjóra. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn mynduðu meirihluta og réðu Guðmund Gunnarsson sem bæjarstjóra. Hann sagði upp störfum árið 2020 og var Birgir Gunnarsson ráðinn í hans stað.
Birgir var í febrúar á þessu ári ráðinn sem framkvæmdastjóri rekstrarstofu Þjóðkirkjunnar og mun hefja þar störf í júní.
Jóhann Birkir Helgason er oddviti Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum en Áslaug og kona Jóhanns eru systkinabörn. Hann segir við Bæjarins bestu að þau tengsl hafi ekki haft áhrif á ákvörðunina.