Finnur Þór Vilhjálmsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, staðfestir við Vísi að dómnum hafi verið áfrýjað en vill ekki tjá sig efnislega um niðurstöðu héraðsdóms. Dómurinn hefur enn ekki verið birtur á vef dómstólsins þrátt fyrir að rétt tæpur mánuður sé síðan hann var kveðinn upp.
Bræðurnir Ágúst Arnar og Einar Ágústssynir voru ákærðir fyrir að svíkja hátt í 85 milljónir króna út úr ríkinu í formi sóknargjalda með því að látast reka trúfélag sem uppfyllti skilyrði laga um slík félög. Þeir voru einnig ákærðir fyrir peningaþvætti á fjármununum.
Auk bræðranna var trúfélagið Zuism sjálft, einkahlutafélagið EAF sem Einar er í forsvari fyrir og bandaríska skúffufélagið Threescore LLC í Delaware ákært í málinu. Bræðurnir millifærðu meðal annars stóran hluta fjármuna Zuism á félagið EAF sem þeir létu Zuism síðar kaupa af öðru félagi Einars.
Sýknudómurinn þýddi að bræðurnir og félög þeirra þurftu ekki að sæta upptöku á tugmilljón króna eignum.

Fyrir dómi hélt saksóknari því fram að svo virtist sem að Ágúst Arnar hafi fjármagnað persónulega neyslu sína með sóknargjöldum sem Zuism fékk frá ríkinu. Í ákæru kom fram að bræðurnir hefðu meðal eytt milljónum af sóknargjöldunum á veitingahúsum, í áfengi og ferðalög.
Ágúst Arnar svaraði litlu um ráðstöfun fjármunanna við aðalmeðferð málsins. Einar bróðir hans hélt því hins vegar fram að hann væri trúaður á kennisetningar fornsúmera og að hann sæi fyrir sér að reka trúfélagið áfram í framtíðinni, fengi það það að starfa óáreitt.
Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra, sem hefur eftirlit með starfsemi trú- og lífsskoðunarfélaga, hefur haldið eftir sóknargjöldum Zuism frá því í byrjun árs 2019. Vísar embætti til verulegs vafa um hvort að raunveruleg starfsemi fari fram á vegum félagsins og hvort það uppfylli skilyrði laga.
Uppfært 11:30 Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar stóð að héraðssaksóknari hefði áfrýjað dómnum til Landsréttar. Það rétt er að ríkissaksóknari tekur ákvörðun um áfrýjun.