Boðað hefur verið til fimmtu mótmæla vegna bankasölunnar og hefur fjöldi manna boðað komu sína á Facebooksíðu sem stofnuð hefur verið um viðburðinn sem hefst klukkan 14:00.
Ekkert frumlegt við spillinguna
Ræðufólk eru þau Bragi, Kristinn Hrafnsson, Drífa Snædal, og Björn Leví Gunnarsson. Listamenn láta að sér kveða: „Guðmundur Pétursson fremur gítarópus, Einar Már Guðmundsson fer með ljóð dagsins, dúettinn Down & Out syngur um sægreifa, Brúðurnar snúa aftur o.fl. Stærstu trommur landsins verða barðar og fólki gefst tækifæri til að fella ríkisstjórnina með þremur boltum,“ segir í viðburðalýsingu.
Bragi Páll segir, spurður hvað hann hafi til málanna að leggja við fundinn, að líta megi á hans ræðu sem lifandi flutning á „þessum sama pistli sem ég hef verið að skrifa um sjálfstæðisflokkinn og Bjarna Ben með smá varíasjónum undanfarin ár. Það er ekkert frumlegt við spillinguna og þá fer að verða erfitt að koma með frumlega hneykslun,“ segir Bragi Páll í samtali við Vísi.
Pistlar Braga, sem birst hafa á Stundinni, hafa vakið mikla athygli en hann mundar penna sinn af mikilli hörku. Síðasti pistill Braga Páls þess efnis er undir fyrirsögninni: „Fjármálaráðherra, flækjufótur, föðurlandssvikari“. Þú óttast ekki meiðyrðamál af hálfu Bjarna?
„Lögin eru víst þannig að það er aðeins hægt að dæma þig fyrir meiðyrði ef sýnt er fram á að það sem sagt er sé efnislega rangt. Það þarf engu að ljúga upp á Bjarna þannig ég verð bara að treysta á að ákveði hann að kæra þá standi lagabókstafurinn með mér.“
Telur komið að lokum pólitísks ferlis Bjarna
En nú hafa dómarar landsins dæmt blaðamenn í hópum ekki fyrir að segja ósatt heldur það að hafa greint frá einhverju ótilhlýðilegu sem þeir telja að eigi ekki erindi við almenning?
„Jú, ég er svosem alveg meðvitaður um þetta, lítið hægt að treysta á löggjöfina í akkúrat þessum málum. En satt best að segja held ég að talsvert stærri spjót standi að Bjarna akkúrat þessi misserin en svo að hann nenni að eltast við nöldur í einhverjum nóboddís eins og mér.“
Bragi Páll telur reyndar einsýnt að nú fari að styttast í endalokin á pólitískum ferli Bjarna.
„Samflokksmenn hljóta að sjá hvernig fylgi hans hefur verið í frjálsu falli þennan tíma sem Bjarni hefur stjórnað honum, þannig ég er farinn að kvíða því þegar hann óhjákvæmilega verður bráðlega stunginn í bakið og einhver annar tekur við. Ég veit ekki hvað ég á að skrifa um í pistlunum mínum þá.“