Neytendur

Neitar að láta Costco hafa sig enn og áfram að fífli

Jakob Bjarnar skrifar
Þórður Már segir það sérdeilis einkennilegt upplegg að fá að kaupa meira magn þar sem dýrara einingaverð er svo lagt til grundvallar. Heldur er tekið að fjara undan dálæti landsmanna á Costco á Íslandi en sjaldan hefur verslun opnað við jafn mikinn fögnuð á Íslandi eins og fyrir fimm árum þegar mætti til leiks.
Þórður Már segir það sérdeilis einkennilegt upplegg að fá að kaupa meira magn þar sem dýrara einingaverð er svo lagt til grundvallar. Heldur er tekið að fjara undan dálæti landsmanna á Costco á Íslandi en sjaldan hefur verslun opnað við jafn mikinn fögnuð á Íslandi eins og fyrir fimm árum þegar mætti til leiks. vísir/vilhelm/aðsend

Þórður Már Jónsson lögmaður segir að undanfarið hafi runnið á sig tvær grímur hvað varðar að versla í Costco. Hann segir að nú sé svo komið að honum líði sem verið sé að hafa sig að fífli.

„Ég fór í Costco fyrir nokkrum dögum með dóttur minni. Ég er löngu búinn að sjá hversu stórhættulegt er að versla þar ef maður passar sig ekki. Það eru mjög margar vörur þar sem eru rándýrar, mikið dýrari en annars staðar, fyrir utan að maður þarf að kaupa mjög mikið magn. Leggjum svo árgjaldið ofan á,“ segir Þórður Már.

Vart þarf að fara mörgum orðum um það æði sem greip um sig á Íslandi þegar Coscto kom og opnaði verslun sína við Kauptún í Garðabæ í maímánuði 2017. Fjölmiðlar voru með beina útsending frá opnuninni, svo kærkominn viðbót þótti verslunin fyrir neytendur sem löngum hafa verið þrautpíndir af háu vöruverði á Íslandi. Því var lofað að þar væri hægt að kaupa gæðavöru á lægra verði en áður hafi þekkst. Í krafti magninnkaupa auk þess sem þeir sem versla í Costco þurfa að greiða sérstakt meðlimagjald sem tryggja eigi lágt vöruverð.

Stofnaður var sérstakur Facebook-hópur þar sem verslunin var lofuð og hafin upp til skýjanna. Facebook-hópurinn sá var um langt skeið sá stærsti á Íslandi og mátti sá sem vildi gera athugasemdir við eitthvað sem að versluninni sneri eiga stjórnendur á fæti.

Kominn með ógeð á því að láta hafa sig að fífli

Þórður Már segir þetta hafa verið flott í byrjun en svo hafi sigið hratt á ógæfuhliðina.

„Eitt af fjölmörgum dæmum sem ég hef séð er þetta: Að kaupa 5 Doritos poka á 1.229 krónur, sem gerir 246 krónur stk. En ef maður kaupir sama snakk í stykkjatali í Krónunni greiðir maður 196 kr. stk. Maður þarf sem sagt að greiða Costco aukalegar 50 kr. stk. fyrir að fá að kaupa í miklu magni og 250 kr. í heildina. Einu sinni hélt ég að þetta væri öfugt, að maður fengi mun betri verð fyrir magnkaup en ekki öfugt. En svona er þetta með mjög margar vörur í Costco.“

Þórður Már segist vera kominn með ógeð á þessu, ógeð á Costco og að hann nenni þeim ekki lengur. Hann segist, í samtali við Vísi, ítrekað hafa lent í því að kaupa varning í Costoco til þess eins að komast að því síðar að hann var að kaupa vörur í magninnkaupum á uppsprengdu verði.

Verulega hefur dregið úr dýrkuninni á Costco sem réði för í Facebookhópnum Keypt í Costco Ísl. - myndir og verð. Athugasemdir sem þessar hefðu ekki fengið að hanga þar uppi lengi áður en nú er öldin önnur.skjáskot

„Ég er ítrekað búinn að lenda í þessu. Þetta byrjaði mjög fljótlega. Ég er búinn að gera mörg mistökin þarna inni, kaupandi haugana af alls kyns mat og sjá svo eftir á að margt af því sem ég keypti er ég að greiða meira per einingu en ef ég hefði keypt það annars staðar,“ segir Þórður Már.

Magninnkaupin réttlæti hærra vöruverð?!

Hann segir að það fyrsta sem hann rakst á í þessu sambandi hafi verið við kaup á kókossafa, sex fernum í pakka.

„Allt í einu kostaði þessi safi 466 krónur á fernu, á meðan ég gat fengið nákvæmlega sömu gæði á 380 krónur í Krónunni. Og þurfti þá bara að kaupa eina einingu.“

Þórður Már segist nú sjá eftir því að hafa ekki skráð hjá sér allar vörur sem hann hefur keypt í Costco og greitt meira fyrir en í boði er annars staðar.

„Horfðu svo á frosnu matvöruna og berin, smoothie blöndurnar. 

Þetta er svoleiðis rándýrt og miklu dýrara en annars staðar. En maður fær auðvitað að kaupa svo stóra poka. 

Það einhvern veginn réttlætir mun hærra kílóverð?!“ segir Þórður Már sem veit vart hvort hann eigi að hlæja eða gráta yfir slíkri röksemdafærslu.

Alltaf er nóg að gera í Costco en Þórður Már telur að þar hafi umferð minnkað verulega frá því sem var.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×