Virði bitcoin hefur hrunið um fimmtíu prósent frá því að það stóð sem hæst. Ástæðan er meðal annars óvissa vegna stríðsins í Úkraínu, vaxandi verðbólga víða og ákvörðun seðlabanka Bandaríkjanna um að hækka stýrivexti.
Að sama skapi hafa ríkisskuldabréf El Salvador fallið í verði. Þau seljast nú á aðeins 40% af upphaflegu verðmæti sínu, að því er segir í spænska blaðinu El País. Fjárfestar eru sagðir byrjaðir að efast um að ríkið nái endum saman á næsta skuldadaga í janúar.
Nayib Bukele, forseti El Salvador, lét varúðarorð matsfyrirtækja um óstöðugleika rafmynta sem vind um eyru þjóta þegar hann tilkynnti að landið yrði það fyrsta í heimi til að taka bitcoin upp sem lögmætan gjaldmiðil í september.
Forsetinn hefur setið fastur við sinn keip þrátt fyrir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem gæti hjálpað stjórn hans að greiða af erlendum skuldum sínum á næsta ári, hafi hvatt hann til að snúa ákvörðun sinni um bitcoin við.
Alþjóðleg matsfyrirtæki hafa þegar lækkað lánshæfiseinkunn El Salvador og sett landið í ruslflokk.
Einræðistilburðir og mannréttindabrot
Bukele hefur verið sakaður um einræðistilburði frá því að hann var kjörinn forseti árið 2019. Þegar þingið neitaði að fjármagna tillögur hans í öryggismálum lét hann þungvopnaða hermenn sitja um þinghúsið. Þá hefur hann grafið undan fjölmiðlum og mannréttindasamtökum.
Að undanförnu hefur stjórn Bukele farið mikinn gegn glæpagengjum sem eru landlæg í El Salvador. Fleiri en 24.000 manns hafa verið handteknir frá því í mars.
Mannréttindasamtök segja að hundruð tilkynninga um brot á réttindum hafi borist. Þau segja margar handtökurnar handahófskenndar og ungir menn séu handteknir aðeins vegna þess hvernig þeir líta út og hvar þeir búa, að sögn AP-fréttastofunnar.
Neyðarlög hafa verið í gildi frá því í vor sem takmarka meðal annars samkomufrelsi og svipta þá sem eru handteknir réttinum til þess að vera upplýstir um réttindi sín og til að fá lögmann.
Á sama tíma hefur Bukele fyllt samfélagsmiðlasíður sínar með myndum af handjárnuðum og blóðugum félögum í glæpagengjum og tekið út reiði sína á mannréttindasamtökum sem gagnrýna aðfarirnar.