Boðið var upp á hörð skoðanaskipti í Bítinu í morgun þar sem mætt voru Dagur fyrir hönd Samfylkingar, Dóra Björt Guðjónsdóttir Pírati en þau eru í meirihluta í borgarstjórn og svo þau Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins og Einar Þorsteinsson sem fer fyrir Framsóknarmönnum. Þar voru þessi mál í brennidepli. Borgarlína, Sundabraut og svo húsnæðisekla í Reykjavík; svimandi hátt húsnæðisverð og leigumarkaður þar sem drjúgur hluti ráðstöfunartekna leigjenda fer í leigu.
Hildur sagði vissulega hafa verið byggt og ráðist í búsetuúrræði fyrir tekjulægstu hópana og svo byggt fyrir efnamesta hópinn. „Þar erum við að sjá rándýrar íbúðir í miðborginni, gríðarlega hátt fermetraverð, byggt á gríðarlega dýrum reitum.“ En svo væri gat, venjulegt fólk sem á ekki kost á að koma sér þaki yfir höfuðið.
Borgarstjóri sagði Reykjavík hafi brugðist við og tvöfaldað framboðið. „Hvaða sveitarfélög önnur hafa brugðist við því? Engin.“
Dagur sagði að byggðar hafi verið íbúðir og áætlanir um mikla uppbyggingu á borðinu. Engin sveitarfélög önnur hafi treyst sér til að bregðast við stöðunni önnur en Reykjavík sem hafi verið í algerri forystu í húsnæðismálum. „Það er stóra breytingin. Ef við hefðum verið að ræða húsnæðismál fyrir tíu árum þá var aðal uppbyggingin í Kópavogi og í kringum okkur …“
Er þetta þá hinum sveitarfélögunum að kenna?
„Jahh, ég hef sagt það seint og snemma, líka fyrir fimm árum að ef þau hefðu brugðist við af sama krafti og Reykjavík hefðum við komist tvöfalt hraðar út úr vandanum. Ef þau hefðu líka verið að byggja fyrir tekjuminnstu hópana með óhagnaðardrifnum húsnæðisfélögum hefðu við komist tvöfalt hraðar út úr þessari krísu.“
Dagur var þá spurður hvers vegna ekki væri gerður sáttmáli milli sveitarfélaganna og hann fagnaði þeirri spurningu því það væri nákvæmlega það sem hann hefði verið að tala fyrir.
Nú er heldur betur að færast fjör í leikinn en kosið verður á morgun og fólki í framboði, stuðningsfólki flokka og framboða, mál að koma að ýmsum atriðum sem vert er að hafa bak við eyrað þegar komið er í kjörklefann.