Alexandra gekk frá lánssamningi til Breiðabliks frá Frankfurt í Þýskalandi á lokadegi félagsskiptagluggans, á miðvikudaginn var, og mætti beint inn í byrjunarliðið. Það tók hana ekki langan tíma að þakka traustið, og þykir henni gott að mæta í heimahagana.
„Þetta er bara eins og að koma heim. Mér líður ótrúlega vel með að mæta, ég þekki eiginlega allar stelpurnar í liðinu og búin að spila með þeim áður.“
„Ég náði tveimur æfingum fyrir leik, einni á þriðjudaginn og annarri í gær - en það er bara fínt að fá að byrja leikinn og komast strax inn í þetta.“
Aðspurð um leik kvöldsins sagði Alexandra: „Mér fannst við kannski hafa getað sett fleiri mörk og mátt hægja stundum aðeins á tempoinu, en þær loka samt vel og við miðjumennirnir þurftum að koma dálítið neðarlega að sækja boltann, þegar við vildum ef til vill vera ofar. En, fjögur mörk, maður getur ekki kvartað yfir því.“
KR komst nærri því að minnka muninn eftir hornspyrnu undir lok fyrri hálfleiks og liðið hafði skapað sér góðar stöður, sem þó nýttust illa, eftir skyndisóknir. Alexandra segir Blika þurfa að bregðast við slíku.
„Við töluðum einmitt um það í hálfleik, þetta er bara kollurinn á okkur sem veldur því. Bara einbeitingarleysi, sem er eitthvað sem við þurfum að laga. En við höldum ágætlega í boltann og þær skapa ekki mikið af færum,“
Erfitt að spila lítið
Alexandra var lykilmaður í liði Breiðabliks sem vann Íslandsmeistaratitilinn 2020 og fór í kjölfarið til Frankfurt í Þýskalandi. Hún hefur ekki fengið mikið að spila á yfirstandandi leiktíð og óskaði eftir því að komast heim til Blika.“ Aðspurð um aðdragandann segir Alexandra:
„Ég fékk þetta ekki staðfest fyrr en síðasta laugardag en þetta er búið að vera aðeins í umræðunni, svona þannig lagað, það er svolítið síðan að ég bað um að fá að fara en ég fékk ekki staðfest fyrr en í síðustu viku.“
En þurfti hún að setja mikla pressu til að ná skiptunum í gegn?
„Já, ég þurfti að pressa smá á þá. En ég skil þá svo sem alveg að vilja ekki hleypa mér strax þegar það er stutt eftir af mótinu og við erum í bullandi séns á Meistaradeildarsæti,“ segir Alexandra sem segist hafa Evrópumeistaramót kvenna á Englandi í sumar hafa sitt að segja þegar að ákvörðuninni kom.
„Ég er ekki búin að vera að spila mikið á tímabilinu, ég er búin að vera að koma mikið inn á og ekki byrjað marga leiki. Auðvitað er EM í huga líka að fá mínútur í lappirnar, í staðinn fyrir að vera að hlaupa núna, að fá að spila leiki og svoleiðis,“
„Auðvitað var erfitt að vera ekki að spila og maður myndi vilja hafa fengið að spila meira en svona er þetta bara.“