Um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja ára og hafa sveitarfélögin samþykkt að ganga til samninga við fyrirtækið um uppsetningu stöðvanna. Gert er ráð fyrir að allt að fimm móttökustöðvar verði reistar í september hjá sveitarfélögunum og fyrirtækjum og fleiri fylgi í kjölfarið.
Sigurður Halldórsson, forstjóri Pure North, segir í samtali við Vísi að tekið verði á móti öllu endurvinnanlegu hráefni sem fellur til í venjulegu heimilishaldi, þar á meðal plasti, pappa og áli. Í fyrstu verði greitt flatt verð eftir vigt óháð efni en ekki liggi fyrir hver upphæðin verði á þessari stundu.
Sigurður segir að upphæðirnar verði ekki háar til að byrja með en reynt verði að byggja ofan á þær þegar reynsla er komin á kerfið og greiða meira fyrir ákveðna endurvinnsluflokka. Sömuleiðis muni verð á mörkuðum hafa þar áhrif. Hann bætir við að fyrirtækið sé í viðræðum við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.
Klár verðmæti í endurvinnsluefnum
„Við erum að bregðast við breyttum tímum og breyttum áherslum í úrgangs- og umhverfismálum, koma þessum málum í gagnsætt ferli svo menn hafi trú á kerfinu og viti í hvaða farveg hráefnin lenda. Það eru verðmæti í endurvinnsluefnum og við erum bara að koma þessu beint í gegn,“ segir Sigurður.
Úrgangsstjórnunarkerfið sé einstakt tækifæri til að hækka endurvinnsluhlutfall heimilisúrgangs. Hlutfallið á Íslandi er í dag með því lægsta í Evrópu eða 27% miðað við árið 2019.
Pure North stefnir að því að endurvinna sem mest af plastinu sem tekið verður á móti í plastendurvinnslu sinni í Hveragerði og bindur svo vonir við að geta hafið endurvinnslu á öðrum efnum þegar magnið er orðið nægt til að standa undir slíkum rekstri. Fram að því verður efnið sent til erlendra aðila til endurvinnslu.

Þörf á átaki svo Ísland nái markmiðum
Haft er eftir Sigurði í tilkynningu að fjárhagslegur hvati hafi gefist vel við skil á drykkjarumbúðum um árabil og dæmi erlendis sanni að fjárhagsleg hvatakerfi virki best til að fá íbúa til að skila efnum í endurvinnslu, bæta árangur í flokkun og auka hreinleika endurvinnsluefna.
„Átaks er þörf ef Íslandi á að takast að standa við alþjóðlegar skuldbindingar á allra næstu árum en ný markmið um endurvinnsluhlutfall heimilisúrgangs munu hækka úr 50% í 65% á næstu 13 árum,“ segir í tilkynningunni.
Íbúar muni geta fylgst með sínum árangri í flokkun og skilum í gegnum smáforrit og til standi að veita sveitarfélögum bætt aðgengi að upplýsingum um uppruna, magn og gæði efna sem skili sér í endurvinnslu.
Pure North endurvinnur plast í starfsstöð sinni í Hveragerði og endurvinnur megnið af því heyrúlluplasti sem til fellur á Íslandi.
Stefnir fyrirtækið á endurvinnslu 2.500 tonna á árinu 2022 sem gæti að sögn Pure North orðið um helmingur alls þess plasts sem er endurunnið frá Íslandi í dag. Fyrirtækið nýtir jarðgufu við endurvinnsluferlið sem vistferilsgreining bendir til að skili um 82% lægra kolefnisspori á hvert unnið tonn af plasti samanborið við sambærilega endurvinnslu í Evrópu.
Fréttin hefur verið uppfærð.