Fótbolti

Konur dæma á HM karla í fyrsta skipti í sögunni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stephanie Frappart mundaði flautuna í leik Nice og Nantes í úrslitum frönsku bikarkeppninnar á dögunum.
Stephanie Frappart mundaði flautuna í leik Nice og Nantes í úrslitum frönsku bikarkeppninnar á dögunum. Catherine Steenkeste/Getty Images

Í fyrsta skipti í sögunni munu kvenkyns dómarar dæma leiki á Heimsmeistaramóti karla í fótbolta þegar mótið fer fram í Katar í nóvember og desember síðar á þessu ári.

Hin franska Stephanie Frappart, Salima Mukansanga frá Rúanda og hin japanska Yoshimi Yamashita hafa allar fengið úthlutaða leiki á HM í Katar. Þeim til aðstoðar verða svo þrír kvenkyns aðstoðardómarar.

Stephanie Frappart er orðið þekkt nafn innan dómarastéttarinnar, en hún var fyrsta konan til að fæma leik í Meistaradeild karla. Hún var einnig fyrsti kvenkyns dómarinn til að dæma leik í úrvalsdeild karla í Frakklandi og fyrst kvenna til að dæma úrslitaleik í Evrópukeppni karla þegar Chelsea og Liverpool áttust við í leiknum um Ofurbikar Evrópu.

Alls hafa 36 dómarar, 69 aðstoðardómarar og 24 myndbandsdómarar fengið verkefni á HM í Katar. Pierluigi Collina, stjórnarformaður dómaranefndar Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA,  segir að horft hafi verið til hæfni dómara við valið.

„Eins og alltaf notums við við viðmiðið „gæði fyrst“ og þeir dómarar sem hafa verið valdir eru í hæsta gæðaflokki á heimsvísu,“ sagði Collina.

„Þetta er niðurstaðan eftir ferli sem hefur tekið nokkur ár þar sem kvenkyns dómarar hafa fengið að þróast í starfi á unglingamótum á vegum FIFA karlamegin.“

„Þannig sýnum við fram á að það eru gæðin sem skipta máli, en ekki kynið. Ég vona að í framtíðinni muni val á kvenkyns dómurum á stærstu karlaleikina vera eitthvað sem fólk lítur á sem eðlilegan hlut, frekan en eitthvað magnað,“ sagði Collina að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×