Fréttablaðið greinir frá þessu en konan, sem er komin átta mánuði á leið, mun vera komin með vottorð frá lækni þar sem segir að ekki sé forsvaranlegt að senda hana úr landi að teknu tillits til ástands hennar. Þá er búið að senda gögn hennar til Útlendingastofnunar og lögreglu.
Í blaðinu segir einnig að vænta megi þess að nánustu fjölskyldumeðlimir hennar fái einnig skjól hér á landi, í það minnsta tímabundið. Mál hælisleitendanna hefur vakið mikla athygli undanfarna daga en hópurinn telur nær 300 manns því sökum kórónuveirufaraldursins hefur ekki verið hægt að senda fólkið af landi brott. Flest fara þau til Grikklands.
Í gærkvöldi kom síðan fram að ekki ríki eining innan ríkisstjórnarinnar um þessi mál. Í viðtali í tíufréttum Sjónvarps sagðist Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra ekki vera ánægður með hvernig Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hafi farið fram í málinu. Sagðist hann hafa komið þeim sjónarmiðum skýrt á framfæri á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun og bætti við að hann væri ekki einn um þá skoðun í ríkisstjórninni.