Handbolti

„Mikill sigur fyrir mig að komast aftur á völlinn eftir sjö ára fjarveru“

Andri Már Eggertsson skrifar
Stella Sigurðardóttir, var með átta löglegar stöðvanir í kvöld
Stella Sigurðardóttir, var með átta löglegar stöðvanir í kvöld Vísir/Hulda Margrét

Fram tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í Origo-höllinni eftir eins marks sigur á Val 22-23. Stella Sigurðardóttir, leikmaður Fram, var klökk þegar hún rifjaði upp allt sem hún hefur gengið í gegnum.

„Ég átti mjög erfitt með að vera á stól og hlaupa inn á völlinn eftir að hafa fengið rautt spjald. Það tók mig smá tíma að komast í gleðina eftir vonbrigðin að hafa fengið rautt spjald,“ sagði Stella eftir leik.

Fram er að fara í nýtt íþróttahús á næsta tímabili og var Stella afar glöð með að kveðja Safamýrina með Íslandsmeistaratitli.

„Við erum svo margar uppaldar í Safamýrinni. Ég held að allir þessir uppöldu leikmenn í Fram sé eins dæmi. Fyrir mig persónulega skiptir þetta miklu máli.“

Stella var klökk þegar hún hugsaði til þess að hafa ekki getað verið í handbolta í sjö ár vegna höfuðmeiðsla og var þetta hennar fyrsti Íslandsmeistaratitill síðan 2013. 

„Ég var seinast Íslandsmeistari 2013 sem er langur tími og ég spilaði ekki handbolta í sjö ár. Þetta var mikill sigur fyrir mig að koma til baka inn á völlinn og tala nú ekki um að taka Íslandsmeistaratitil áður en ég hætti.“

„Ég sat á stólnum grátandi þegar ég áttaði mig á því að við værum að fara verða Íslandsmeistarar. Það voru mikið af tilfinningum sem fóru í gegnum hausinn á mér. Þetta hefur allt verið ótrúlega erfitt og bara það að hafa náð að koma til baka á völlinn eftir sjö ára fjarveru var mikill sigur fyrir mig.“

Stella var óviss hvort hún myndi taka slaginn á næsta tímabili eða leggja skóna á hilluna. 

„Markmiðið mitt var bara að koma og vera á mínum forsendum. Það er mjög gott fyrir andlega heilsuna mína að fá að ákveða sjálf hvenær handboltaferlinum mínum muni ljúka,“ sagði Stella að lokum sem ætlaði að leggjast undir feld um framtíð sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×