Innlent

Stálu vörum úr mat­vöru­verslun í mið­bænum

Atli Ísleifsson skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmis horn að líta í gærkvöldi og í nótt.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmis horn að líta í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af tveimur konum sem voru að stela vörum úr matvöruverslun í miðborg Reykjavíkur.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu en ekki er tekið fram hvenær dags tilkynning barst, en í tilkynningunni er sagt frá verkefnum lögreglunnar í gærkvöldi og í nótt. 

Þar segir að konurnar hafi verið færðar á lögreglustöð þar sem skýrsla var tekin af þeim og þeim í framhaldinu sleppt.

Í tilkynningunni segir einnig að maður í annarlegu ástandi hafi verið handtekinn í hverfi 110 í Reykjavík þar sem hann hafi neitað að yfirgefa húsnæði þar sem hann var ekki velkominn. Maðurinn hafði einnig í hótunum við lögreglu og var hann vistaður í fangaklefa.

Þá var manni í mjög annarlegu ástandi komið til aðstoðar í hverfi 110 í Reykjavík þar sem hann lá ósjálfbjarga út á víðavangi. Ók lögregla honum til síns heima þar sem tekið var á móti honum.

Einnig segir frá því að lögregla hafi stöðvað ökumann í hverfi 108 í Reykjavík þar sem bíllinn hafi verið á nagladekkjum. Var málið afgreitt á vettvangi. Þá voru þrír ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur, en sá sem hraðast ók var á 125 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 80 kílómetrar á klukkustund. Ennfremur stöðvaði lögregla nokkra ökumenn vegna aksturs undir áhrifum áfengis eða fíkniefna í gærkvöldi og í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×