Atvinnulíf

„Stundum verða þessar skýrslur of mikið „sjáið hvað við erum frábær““

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Sara Júlía Baldvinsdóttir, Nikólína Dís Kristjánsdóttir og Ísak Máni Grant eru nemar í HR sem fengin voru til að vinna sem fagráð Hvatningaverðlauna fyrir sjálfbærniskýrslu ársins 2022. Þau segja mikilvægt að fyrirtæki tryggi betur gagnsæi með því að segja bæði frá því sem vel gengur en líka því sem ekki hefur gengið.
Sara Júlía Baldvinsdóttir, Nikólína Dís Kristjánsdóttir og Ísak Máni Grant eru nemar í HR sem fengin voru til að vinna sem fagráð Hvatningaverðlauna fyrir sjálfbærniskýrslu ársins 2022. Þau segja mikilvægt að fyrirtæki tryggi betur gagnsæi með því að segja bæði frá því sem vel gengur en líka því sem ekki hefur gengið. Vísir/Vilhelm

Nikólína Dís Kristjánsdóttir, Sara Júlía Baldvinsdóttir og Ísak Máni Grant luku nýverið nýjum áfanga sem Bjarni Herrera kennir í HR þar sem áhersla er lögð á sjálfbæran rekstur og upplýsingagjöf.

Í kjölfarið voru þau fengin til að vera fagráð sem mat í frumskoðun þær sjálbærniskýrslur sem fyrirtæki og stofnanir tilnefndu til Hvatningaverðlauna fyrir sjálfbærniskýrslu ársins 2022. Þau verðlaun verða veitt á á morgun, þriðjudag en viðurðurinn er aðeins opinn boðsgestum.

Í Atvinnulífinu í dag og á morgun er fjallað um sjálfbærniskýrslur og árlegt mat á því hvaða fyrirtæki eða stofnun hlýtur Hvatningaverðlaunin fyrir sjálfbærniskýrslu ársins.

Þetta er í fimmta sinn sem Hvatningaverðlaunin fyrir sjálfbærniskýrslu ársins verður veitt en að hátíðinni hafa Viðskiptaráð, Stjórnvísi og Festa staðið frá árinu 2018. Í ár bárust 48 tilnefningar frá 33 aðilum en dómnefnd metur hvaða aðilar hljóta verðlaunin.

Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem fagráð er stofnað til undirbúnings á frekari mati tilnefndra skýrslna. 

Atvinnulífinu lék forvitni á að heyra hvað ungum og upprennandi forkólfum á vinnumarkaði fannst um verkefnið.

Nikólína er 23 ára viðskiptafræðingur frá Eskifirði.Vísir/Vilhelm

Mikill og góður lærdómur

Sara og Ísak eru frá Akureyri en Nikólína frá Eskifirði. Öll eru þau 23 ára viðskiptafræðingar sem sátu saman umræddan kúrs í HR.

Þegar þau voru beðin um að vinna verkefni sem fagráð til undirbúnings viðurkenningahátíðinni í ár, vissu þau lítið um verkefnið.

„Bjarni Herrera heyrði í okkur í lok áfangans og bauð okkur að taka þátt í verkefni á vegum Festu án þess að segja okkur mikið meira en það,“ segir Nikólína.

Nokkru áður höfðu Harpa Júlíusdóttir og Hrund Gunnsteinsdóttur horft á lokakynningar nemenda í áfanganum og segja Sara, Ísak og Nikólína að eflaust hafi hugmyndin kviknað þar.

Sjálf telja þau verkefnið sem fólst í vinnu fagráðsins hafa verið afar góður lærdómur.

Því sjálfbærniáfangi er mjög nýr og þótt margt liggi fyrir nú þegar, svo sem staðlar, sáttmálar og fleira sem hægt er að styðjast við, er atvinnulífið um allan heim enn líka að læra, þróa og móta sjálfbærniskýrslur til framtíðar.

Ísak er 23 ára viðskiptafræðingur frá Akureyri.Vísir/Vilhelm

Um þá skýrslu sem mun hljóta viðurkenningu á morgun segir í kynningartexta um hátíðina:

„Viðurkenninguna hlýtur fyrirtæki eða stofnun sem birtir upplýsingar um sjálfbærni og samfélagsábyrgð sína með markvissum og vönduðum hætti. Skýrslan getur verið í formi vefsíðu, rafræns skjals eða öðrum hætti sem hentar þeim sem hún á erindi við, svo sem fjárfestum, viðskiptavinum, samstarfsaðilum, yfirvöldum og/eða almenningi.“

Snýst ekki um að virðast vera frábær

Sara, Ísak og Nikólína eru öll ánægð með sjálfbærniáfangann og segjast líka brenna fyrir viðfangsefninu.

Að vinna svona verkefni beint fyrir atvinnulífið gaf þeim samt mikið.

Maður lærir alltaf mest af þeim verkefnum sem tengjast beint atvinnulífinu og gefur manni reynslu sem maður getur tekið með sér út í atvinnulífið,“ 

segir Sara.

En hvað fannst ykkur standa upp úr í áfanganum eða skýrslunum sem þið skoðuðuð?

„Mér fannst standa uppúr hvað fyrirtæki geta gert til að leggja sitt af mörkum, en á sama tíma hvað það er líka hægt að fegra myndina af því hvað fyrirtæki eru að gera,“ segir Ísak.

Hvernig unnuð þið að verkefninu sem fagráð?

„Við unnum eftir ákveðinni matrixu sem þau hjá Festu hafa þróað síðustu ár. Þar vorum við aðallega að skoða innihald skýrslnanna, þá vinnu sem fyrirtækin hafa lagt í þeirra vegferð til dæmis mikilvægisgreiningar, markmiðasetningu og mælingar,“ útskýrir Sara.

Sara er 23 ára viðskiptafræðingur frá Akureyri.Vísir/Vilhelm

Sara, Nikólína og Ísak segja tilnefndar skýrslur hafa verið afar fjölbreyttar.

„Mér fannst gaman að sjá hvað það bárust margar skýrslur, það er gott að sjá að það eru alltaf fleiri og fleiri fyrirtæki að taka á þessum málum. Mörg af þeim voru bara að stíga sín fyrstu skref en það er mjög gaman að sjá fyrirtæki sem eru að stíga sín fyrstu skref þótt þau séu ekki alltaf fullkomin,“ segir Ísak.

En getið þið þá eitthvað sagt okkur um hvað ykkur fannst kannski sérstaklega jákvætt eða hvað fyrirtæki mættu leggja meiri áherslu á?

Það sem okkur fannst mjög mikilvægt í þessum skýrslum var að greina frá þeim árangri sem hafði náðst út frá settum markmiðum en það sem er ekki síður mikilvægt er að greina frá þeim árangri sem ekki náðist. 

Fyrirtæki eiga það nefnilega til að segja bara frá góðum árangri, en sjálfbærni snýst um gagnsæi svo það er mikilvægt að greina frá því sem ekki fer vel líka,“ 

segir Nikólína.

Sara tekur undir þetta og segir: 

„Það er svo mikilvægt að segja frá þeim markmiðum sem ekki hafa náðst því það endurspeglar vel þær áskoranir sem fyrirtæki standa frammi fyrir og hvernig þau ætla að tækla þær áskoranir. Að miðla ekki þessum upplýsingum kemur alltaf niður á gagnsæi. Við erum öll að læra og það gengur mun betur þegar við komum hreint fram og hjálpumst að.“

Hvað er það helst sem fyrirtæki og stofnanir eru svolítið að flaska á?

,,Mér fannst vera smá einkennandi að mörg fyrirtæki eru að klikka á því að setja sér mælanleg markmið. Það er algengt að fyrirtækin setja fram eitthvað frekar víðtækt markmið og svo engar tölur eða neitt um hvernig á að gera það,“ segir Ísak og bætir við:

Stundum verða þessar skýrslur of mikið „sjáið hvað við erum frábær“ þar sem þau klikka á því að taka fram það sem gekk ekki vel eða þau markmið sem náðust ekki. 

Mér finnst það vera einn mikilvægasti þátturinn í þessu, það er þegar fyrirtæki koma hreint fram með þær áskoranir sem þau eru að díla við og sýni að þau eru meðvituð um að þau eru ekki fullkomin og að þau eru bara á ákveðinni vegferð í átt að sjálfbærari og ábyrgari rekstri.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×