Innlent

Ferða­maður úr­skurðaður í far­bann vegna gruns um nauðgun á Akur­eyri

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Meint brot áttu sér stað á skemmtistað á Akureyri.
Meint brot áttu sér stað á skemmtistað á Akureyri. Vísir/Vilhelm

Landsréttur staðfesti í gær farbann yfir manni sem grunaður er um nauðgun og kynferðislega áreitni á skemmtistað á Akureyri. Í úrskurði Landsréttar kemur fram að málið sé til rannsóknar en dyraverðir óskuðu eftir aðstoð lögreglu aðfaranótt 29. maí síðastliðinn vegna gruns um framangreind brot.

Í úrskurðinum segir að maðurinn hafi verið sjáanlega ölvaður og talað litla ensku og enga íslensku. Vitni hafi greint frá því að stúlka hafi komið hágrátandi niður á bar með fötin hálf niður um sig og sagt að maður hafi tekið niður um hana, farið með hana afsíðis og tekið getnaðarlim sinn út. Hún hafi náð að forða sér frá honum, farið niður að barnum, rætt við umrædd vitni og getað vísað á manninn. Maðurinn hafi þá reynt að hlaupa af vettvangi en dyraverðir héldu manninum þegar lögreglu bar að barði.

Brotaþolar hafa lýst því að erlendur maður með derhúfu og skegg hafi kysst þær án samþykkis og káfað á þeim í þeirra óþökk. Þá hafi hann einnig reynt að setja getnaðarlim sinn í aðra þeirra en hún hafi að lokum náð að koma sér í burtu.

Maðurinn sætir nú farbanni fram til 29. júní þar sem fram er kominn rökstuddur grunur um að viðkomandi hafi framið fyrrgreind brot. Fallist var á að maðurinn kunni að reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér undan málssókn með öðrum hætti, enda hafi hann engin tengsl við landið og kvaðst sjálfur vera hér sem ferðamaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×