Fótbolti

Segir Barcelona þurfa tæp­lega hálfan milljarð evra til að „bjarga“ fé­laginu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nývangur, heimavöllur Barcelona.
Nývangur, heimavöllur Barcelona. Alex Caparros/Getty Images

Eduard Romeu, varaforseti fjármáladeildar Barcelona, telur félagið þurfa 427 milljónir evra svo hægt sé að bjarga því frá glötun.

Það er sem kórónuveiran og faraldurinn sem henni fylgdi hafi opinberað hversu ótrúlega illa rekið fótboltafélagið Barcelona hefur verið undanfarin ár. Liðið hefur verið á barmi gjaldþrots síðustu mánuði og nánast verið rekið mánuð fyrir mánuð.

Romeu, starfsmaður innan fjármáladeild félagsins, hefur nú staðfest að félagið þurfti hartnær hálfan milljarð evra til að forðast gjaldþrot. Romeu tekur hins fram að Barcelona muni ekki samþykkja samning fjárfestingafyrirtækisins CVC þar sem þeim þykir samningurinn einfaldlega slæmur.

Samkvæmt samningnum myndi CVC kaupa 10 prósent hlut í La Liga, spænsku úrvalsdeildinni. Öll félög deildarinnar nema Real Madríd og Barcelona samþykktu tilboðið. Þau tvö hafa kært samkomulagið ásamt spænska knattspyrnusambandinu.

The Athletic greinir frá. Þar segir að skuldir Barcelona nemi rúmlega milljarði evra og þó Barcelona hafi þegar samið við Andreas Christensen (Chelsea) og Franck Kessie (AC Milan) um að ganga til liðs við félagið á frjálsri sölu þá er ekki hægt að skrá leikmennina inn í félagið út af launaþaki La Liga.

„Eins og ég hef sagt áður, ef einhver vill gefa mér og Barcelona 500 milljónir evra … það er það sem þarf til að bjarga félaginu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×