Fótbolti

Bæjarar fengu einn eftir­sóttasta mann Evrópu á gjafa­prís

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ryan Gravenberch er mættur til Bayern.
Ryan Gravenberch er mættur til Bayern. Patrick Goosen/Getty Images

Hollenski miðjumaðurinn Ryan Gravenberch er genginn í raðir Þýskalandsmeistara Bayern München. Hann kemur frá Ajax á sannkölluðu gjafaverði.

Hinn tvítugi Gravenberch var vægast sagt eftirsóttur er ljóst var að hann myndi ekki skrifa undir nýjan samning við Hollandsmeistara Ajax. Samningurinn hefði runnið út næsta sumar og því var Ajax tilbúið að selja þennan tvítuga miðjumann ódýrt frekar en að missa hann frítt eftir tæplega ár.

Það nýttu Bæjarar sér en þeir borga aðeins tæpar 16 milljónir punda fyrir leikmanninn. Heildarverðið gæti þó numið 20 milljónum punda ef allar árangurstengdar greiðslur verða greiddar.

Um er að ræða sannkallað gjafaverð ef miðað er við félagaskiptamarkaðinn í dag. Til að mynda er samlandi Gravenberch – Frenkie de Jong – mögulega á leið til Manchester United fyrir 80 milljónir punda.

Gravenberch sjálfur var orðaður við Man United þar sem hans fyrrum þjálfari, Erik Ten Hag, er nú við stjórnvölin .

„Þegar tilboðið kom frá Bayern þurfti ég ekki að hugsa mig lengi um. Ég er kominn hingað til að vinna fjölda titla. Man United er stórt og fallegt félag en ég hafði þegar góða tilfinningu fyrir Bayern og hafði gefið þeim orð mitt.“

Skrifaði miðjumaðurinn undir fimm ára samning við Bayern. Verður forvitnilegt að sjá hvar Julian Nagelsmann stillir þessum spennandi leikmanni upp en hann getur leyst flestar stöður á miðsvæðinu. Líklegast mun hann spila eina af tveimur miðjumannsstöðunum í hinu skemmtilega 3-2-4-1 leikkerfi Bæjara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×